Erlent

Leiðtogar stjórnarandstöðu Venesúela ákærðir fyrir landráð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stjórnlagaráðið kallar stjórnarandstöðuna landráðamenn.
Stjórnlagaráðið kallar stjórnarandstöðuna landráðamenn. Vísir/EPA
Nýskipað stjórnlagaráð Venesúela ákvað í gær einróma að draga leiðtoga stjórnarandstöðunnar þar í landi fyrir dóm vegna meintra landráða þeirra. BBC greindi frá því að ráðið saki umrædda stjórnarandstæðinga um að styðja viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn Venesúela.

Er þar vísað til tilskipunar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í síðustu viku um að banna viðskipti með venesúelsk skuldabréf. Sagði forsetinn það gert vegna alvarlegra mannréttindabrota og skipan ólögmæts stjórnlagaráðs sem forsetinn sagði skipað til að ræna völdum lýðræðislega kjörins þings. Þess ber að geta að stjórnarandstaðan er í meirihluta á þinginu.

Stjórnlagaráðið fundaði í þrjár klukkustundir í gær og skiptust ráðsmenn á því að afhrópa stjórnar­andstæðinga og hylla forsetann Nicolas Maduro.

Beindist gagnrýnin einkum að hinum nýrekna ríkissaksóknara Luisa Ortega sem er harður gagnrýnandi Maduro. Iris Varela, ein stjórnlagaráðsmanna, kallaði Ortega til að mynda „úrhrak“. Sagði hún einnig að Ortega „hlykkjaðist eins og ormur“.

Julio Borges, forseti þingsins, var sagður einn helsti óvinur ríkisins á fundinum. Brást hann við með að segja að ríkisstjórnin ætti að hætta að kenna öðrum um ófarir ríkisins heldur líta í eigin barm.

„Sá sem ber ábyrgð á þessu heitir Maduro. Það er tími til kominn að hann líti í spegil og sætti sig við þá staðreynd að hann hefur eyðilagt Venesúela,“ sagði Borges við blaðamenn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×