Innlent

Heimilt verði að taka ökupróf á sjálfskipta bifreið

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Breytingar af þessu tagi hafa þegar verið gerðar í Danmörku og í Noregi.
Breytingar af þessu tagi hafa þegar verið gerðar í Danmörku og í Noregi. Visir/Gísli
Drög að breytingu á reglugerð um ökuskírteini er nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Á vef ráðuneytisins kemur fram að breytingarnar snúist meðal annars um að samræma ákvæði reglugerðarinnar við umferðarlög og tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini.

Lagt er til að valfrjálst verði hvort próf sé tekið á sjálfskipta eða beinskipta bifreið og verði sjálfskipt bifreið fyrir valinu takmarkast ökuréttindin þannig. Í drögum að reglugerðinni segir að þróun í tækni ökutækja hafi leitt til þess að stöðugt fleiri eru ekki með beinskiptingu, til dæmis bílar sem knúnir eru áfram með rafmagni. Breytingar af þessu tagi hafa þegar verið gerðar í Danmörku og í Noregi.

Þess má geta að áður var heimilt af heilbrigðisástæðum að taka próf á sjálfskipta bifreið og þá að mati læknis.

Einnig er lagt til að þegar ökutæki sem notað er við kennslu eða próf er búið sérstökum hjálparbúnaði eigi ökumenn að geta útskýrt virkni slíks búnaðar. Í núgildandi reglugerð er gerð krafa um að unnt sé að taka úr notkun hjálparbúnað þegar kennsla og próf fer fram. Er breytingin gerð vegna þess að orðið er stöðugt algengara að hjálparbúnaður sé í ökutækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×