Innlent

Rjómablíða á föstudag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ferfætlingar og aðrir íbúar Austurlands mega búast við töluverðum hlýindum um helgina.
Ferfætlingar og aðrir íbúar Austurlands mega búast við töluverðum hlýindum um helgina. Vísir/Vilhelm
Íbúar Norður- og Austurlands geta búist við brakandi blíðu um helgina ef eitthvað er að marka spá Veðurstofunnar.

Gert er ráð fyrir að léttskýjað verði norðan- og austantil á föstudag og laugardag og mun hiti fara upp í allt að 22 gráður.

Á Suður- og Vesturlandi verður hins vegar skýjað og lítilsháttar væta næstu daga og hitinn á bilinu 11-15 stig. Þá mun kólna í næstu viku.

Annars verður skýjað með vesturströndinni í dag og mun bæta í vind í nótt. Þá verður einnig skýjað á morgun ásamt súld af og til á morgun en þurrt á austanverðu landinu. Hiti 10 til 18 stig að deginum, hlýjast á Suðausturlandi í dag, en Austurlandi á morgun. Nánar á veðurvef Vísis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðvestanátt, víða 10-15 m/s. Skýjað og lítilsháttar væta, en þurrt á austanverðu landinu. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast austanlands. 

Á föstudag:

Suðvestan og sunnan 8-13 m/s. Skýjað og smásúld á Suður- og Vesturlandi með hita 11 til 14 stig. Léttskýjað á Norður- og Austurlandi með hita 15 til 22 stig. 

Á laugardag:

Sunnan 8-13 og rigning, en úrkomulítið norðanlands. Hiti 11 til 18 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á sunnudag:

Vestan og norðvestan 3-8, skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast suðaustantil á landinu. 

Á mánudag:

Breytileg átt 3-8 og skúrir í flestum landshlutum. Hiti víða 8 til 13 stig. 

Á þriðjudag:

Hæg suðvestlæg eða breytileg átt og yfirleitt léttskýjað. Hiti 8 til 13 stig yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×