Enski boltinn

Nýliðar Brighton unnu fyrsta sigurinn | Dýrlingarnir töpuðu á heimavelli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Brighton fagnar marki í dag.
Brighton fagnar marki í dag. Vísir/Getty
Brighton vann öruggan 3-1 sigur á West Brom á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag en þetta var fyrsti sigur liðsins á þessu tímabili.

Þýski miðjumaðurinn Pascal Gross var allt í öllu í sóknarleik Brighton í dag en eftir að hafa skorað tvö mörk í fyrri hálfleik lagði hann upp þriðja markið í seinni hálfleik fyrir Tomer Hemed.

James Morrison minnkaði muninn fyrir gestina korteri fyrir leikslok en lengra komust þeir ekki. Var þetta fyrsta tap West Brom á tímabilinu.

Þá sótti Watford þrjú stig á suðurströndina til Southampton í dag en Watford er eitt tveggja liða sem er enn ósigrað eftir fjóra leiki.

Abdoulaye Doucoure kom Watford yfir undir lok fyrri hálfleiks með öðru marki sínu á tímabilinu en Daryl Janmaat bætti við á 66. mínútu fyrir gestina.

Með sigrinum skaust Watford upp í 4. sætið í bili með átta stig eftir tvo sigra og tvö jafntefli í fyrstu fjórum leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×