Erlent

Rajoy ósáttur við áform Katalóna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Nordicphotos/AFP
Fyrirhuguð atkvæðagreiðsla Katalóna um sjálfstæði frá Spáni, sem á að fara fram 1. október næstkomandi, er ólögleg. Þessari skoðun lýsti Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í gær. Sagðist hann jafnframt ætla að biðja dómstóla um að fella lögin um að halda skuli atkvæðagreiðsluna úr gildi.

Meirihlutinn á katalónska héraðs­þinginu, sem er hlynntur aðskilnaði frá Spáni, samþykkti frumvarpið á miðvikudaginn.

Rajoy er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að atkvæðagreiðslan sé lýðræðisleg. „Það sem er ekki löglegt er ekki lýðræðislegt,“ sagði forsætisráðherrann sem lýsti því jafnframt yfir að samþykkt frumvarpsins væri óþolandi óhlýðni.

Óvíst er hvort Katalónar myndu samþykkja að lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni þótt meirihluti katalónska þingsins telji meirihluta að baki aðskilnaði. Í mörg ár hefur fylgið sveiflast. Samkvæmt könnun La Razón frá því í ágúst voru fleiri andvígir aðskilnaði en hlynntir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×