Erlent

Irma veldur tjóni í Karíbahafi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fimmta stigs fellibylurinn Irma sést hér á miðri mynd. Hægra megin má sjá hitabeltisstorminn Jose elta Irmu.
Fimmta stigs fellibylurinn Irma sést hér á miðri mynd. Hægra megin má sjá hitabeltisstorminn Jose elta Irmu. vísir/epa
Fimmta stigs fellibylurinn Irma eyðilagði í gær fjölda bygginga á frönskum eyjum í Karíbahafi. Mikil flóð fylgdu jafnframt ofsaveðrinu. Meðalvindhraði fellibylsins var í gær nærri 83 metrar á sekúndu.

Irma er öflugasti Atlantshafsstormur undanfarins áratugar og skall bylurinn á Antígva og Barbúda í gærmorgun áður en hann stefndi til eyjanna Saint Martin og Saint Barthélemy, þaðan hélt Irma yfir Jómfrúaeyjar og meðfram norðurströnd Púertó Ríkó. Spár gera ráð fyrir að Irma fari meðfram norðurströnd Hispanjólu í dag.

Minnst tveir létust, og aðrir tveir eru alvarlega slasaðir, á eyjunum St. Bart og St. Martin, en þær tilheyra Frakklandi. Í yfirlýsingu frá frönskum stjórnvöldum kom einnig fram að fjögur sterkbyggðustu húsin á Saint Martin hefðu hrunið, allt rafmagn farið af, slökkviliðsstöðin væri óstarfhæf og þök hefðu fokið af húsum. Franska ríkisstjórnin sendi neyðarsveitir sínar til eyjanna til að aðstoða fólk í neyð.

Gaston Browne, forsætisráðherra Antígva og Barbúda, tilkynnti um það í gær að guð hefði vakað yfir íbúum á Antígva í gær. „Spár gerðu ráð fyrir gríðarlegum hamförum á Antígva, að innviðir myndu hrynja, fólk myndi deyja og miklu áfalli fyrir hagkerfið. Í birtingu sjáum við að þetta stóðst ekki. Enginn hefur látist á Antígvu, allir lifðu af. Jafnvel dýrin okkar stóðu af sér storminn,“ segir í tilkynningunni.

„Þegar kemur að Barbúda virðist sem svo að nokkur skaði hafi orðið á byggingum en ég hef ekkert heyrt af mannfalli. Það varð Barbúda til góðs að eyjarskeggjar voru vel undirbúnir, rétt eins og á Antígva,“ segir enn fremur í tilkynningu Brownes.

Samkvæmt BBC er hins vegar óljóst hvert ástandið sé á Barbúda. „Við vitum eiginlega ekkert hvað er að gerast,“ sagði antígski blaðamaðurinn Gemma Handy við BBC.

Eins og áður segir mun Irma að öllum líkindum fara með fram norðurströnd Hispanjólu í dag. Samkvæmt spá bandarísku fellibyljastofnunarinnar NHC mun miðja Irmu ganga yfir austurhluta Kúbu á föstudag og að öllum líkindum á land á suðurodda Flórída-ríkis Bandaríkjanna á sunnudag.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi í Flórída, Púertó Ríkó og á Bandarísku Jómfrúaeyjum vegna Irmu og var íbúum Key West, eyju við suðurodda Flórída, gert að yfirgefa hana snemma í gær.

„Fylgist náið með fellibylnum. Liðið mitt, sem hefur unnið og er að vinna gott starf í Texas, er nú þegar komið til Flórída. Það er enginn tími fyrir hvíld!“ skrifaði forsetinn á Twitter í gær. Vísaði hann þar til þess að fellibylurinn Harvey gekk á land í Texas og fór þaðan til Louisiana um mánaðamótin. Olli Harvey gríðarlegu tjóni og kostaði tugi mannslífa.

Mögulega mun þriðji fellibylurinn hrella íbúa Norður-Ameríku á næstunni en hitabeltisstormurinn Jose fylgir fast á hæla Irmu. NHC spáir því að Jose muni breytast í fellibyl. Viðvaranir hafa ekki verið gefnar út vegna Jose en NHC hefur beint þeim tilmælum til íbúa Lee­ward-eyja að vera vel á varðbergi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×