Arnar Jónsson Aspar, sem lést í kjölfar líkamsárásar sem hann varð fyrir á heimili sínu við Æsustaði í Mosfellsdal í júní síðastliðnum, kafnaði í árásinni. Þetta kemur fram í ákæru á hendur Sveini Gesti Tryggvasyni en hann er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til bana Arnars.
Í ákærunni segir að Arnar hafi látið lífið vegna þess að öndunarhæfni hans minnkaði mikið. Það olli svo því að hann kafnaði en kæfinguna má rekja til nokkurra samverkandi þátta, það er „einkenna æsingaóráðs, þeirrar þvinguðu frambeygðu stöðu sem hann var í með hendur fyrir aftan bak, þunga ákærða sem þrýsti á brjósthol hans aftanvert, hálstaks í langan tíma og mótspyrnu hans sjálfs,“ eins og segir í ákæru.
Þar er því jafnframt lýst hvernig Sveinn Gestur á að hafa ráðist að Arnari. Segir að Sveinn hafi haldið báðum höndum Arnars fyrir aftan bak, þar sem hann lá á maganum á jörðinni. Þá á Sveinn að hafa farið klofvega yfir bak Arnars þar sem hann notaði líkamsþunga sinn til að halda honum föstum. Er því svo lýst að Sveinn hafi tekið hann hálstaki og slegið hann ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa.
Ákæra á hendur Sveini Gesti var gefin út á fimmtudag í liðinni viku. Var hann þá leiddur fyrir dómara og úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 28. september.
Málið var rannsakað sem manndrápsmál og var Sveinn Gestur grunaður um að hafa brotið gegn 211. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um manndráp. Hann er hins vegar ákærður fyrir brot gegn 218. grein sem tekur til stórfelldrar líkamsárásar. Brotið varðar allt að 16 ára fangelsi.
Sveinn Gestur hefur alfarið neitað sök í málinu.
Þór Þorl.
Valur