Innlent

Ölvun og óspektir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Í fyrradag reyndist farþegi svo ölvaður að hann vissi ekki hvar í heiminum hann var niðurkominn. Svipað ástand var á farþega sem lá sofandi milli innritunarvéla í flugstöðinni.
Í fyrradag reyndist farþegi svo ölvaður að hann vissi ekki hvar í heiminum hann var niðurkominn. Svipað ástand var á farþega sem lá sofandi milli innritunarvéla í flugstöðinni. Vísir/Stefán
Talsverður erill hefur verið hjá lögreglunni á Suðurnesjum síðustu sólarhringa vegna ölvunar og óspekta flugfarþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Þrír ofurölvi farþegar áreittu samferðafólk sitt í fluginu á leiðinni til landsins í fyrrinótt. Þeir voru sofnaðir þegar lögreglumenn komu um borð í flugvélina og brugðust illa við þegar þeir voru vaktir. Einn þeirra neitaði að framvísa skilríkjum og var hann færður á lögreglustöð. Hann fékk að fara þegar hann hafði sagt á sér deili.

Í fyrradag reyndist annar farþegi svo ölvaður að hann vissi ekki hvar í heiminum hann var niðurkominn þegar lögregla ræddi við hann. Svipað ástand var á farþega sem lá sofandi milli innritunarvéla í flugstöðinni og hafði misst af flugi frá landinu.

Loks var tilkynnt um ölvaðan farþega í flugi á leið til landsins sem hafði verið að áreita aðra farþega meðan á ferðinni stóð. Hann hugðist halda áfram til Helsinki þetta sama kvöld en flugstjóri neitaði að taka hann með vegna hegðunar hans í fyrra fluginu. Lögreglu barst svo önnur tilkynning vegna sama farþega um nóttina þegar hann var farinn að áreita viðskiptavini í komuverslun 10 – 11 í flugstöðinni. Hann var handtekinn, færður á lögreglustöð og látinn sofa úr sér. Hann var sektaður í kjölfarið og síðan sleppt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×