Innlent

Arpaio lykilmaður í íslensku dómsmáli

Aðalheiður Ámundadóttir og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Mikið var fjallað um mál Hanes-hjóna í íslenskum fjölmiðlum.
Mikið var fjallað um mál Hanes-hjóna í íslenskum fjölmiðlum. Nordicphotos/Getty
Þann 25. ágúst síðastliðinn tók Donald Trump Bandaríkjaforseti þá afar umdeildu ákvörðun að náða lögreglustjórann Joe Arpaio. Í tilkynningu frá forsetaembættinu sagði að Arpaio hefði þjónað þjóð sinni af mikilli dyggð. Hann væri því verðugur náðunar.

Trump kallaði Arpaio í kjölfarið „sannan föðurlandsvin“ á Twitter-síðu sinni. Sagði hann jafnframt að Arpaio hefði þjónað lykilhlutverki í að halda „íbúum Arizona öruggum“.

En til þess að verða náðaður þarf maður að hafa brotið af sér, eða að minnsta kosti vera grunaður um ólöglegt athæfi.

Harðasti lögreglustjóri Bandaríkjanna

Í júlí síðastliðnum var Arpaio dæmdur fyrir að neita að hlýða tilskipun dómara um að hætta að hneppa ólöglega innflytjendur í varðhald. Arpaio hefur unnið sér inn það orðspor undanfarin ár og áratugi að vera einkar mikill harðlínumaður þegar kemur að ólöglegum innflytjendum.

Arpaio varð lögreglustjóri Maricopa-sýslu í Arizona árið 1993 og gegndi hann þeirri stöðu allt fram til 2016. Lýsti hann sjálfum sér sem harðasta lögreglustjóra Bandaríkjanna en hann hafði áður þjónað í hernum og unnið fyrir fíkniefnalögregluna.

Það mætti segja að andstæðingar Arpaio séu sammála honum um titilinn „harðasti lögreglustjóri Bandaríkjanna“. Þeir leggja þó eflaust aðra merkingu í þau orð. Umdeildir starfshættir hans leiddu til þess að dómsmálaráðuneytið lýsti því yfir árið 2011 að embætti Arpaio hefði brotið á mannréttindum rómanskættaðra. Hefði embættið mismunað þeim fyrir kynþátt sinn.

Sjálfur sagði Arpaio árið 2009 að hann hefði þá handtekið að minnsta kosti 30.000 ólöglega innflytjendur á undanförnum fimm árum. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra kom frá Rómönsku-Ameríku.

Umdeild ákvörðun forseta

Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að náða Arpaio er umdeild eins og áður segir. Í könnun NBC og SurveyMonkey kemur fram að 60 prósentum aðspurðra fannst ákvörðunin röng hjá forsetanum samanborið við 34 prósent sem töldu hana rétta.

John McCain, öldungadeildarþingmaður Repúblikana og harður gagnrýnandi forsetans, sagði í kjölfar tilkynningarinnar að náðunin væri í raun stuðningsyfirlýsing við kynþáttahatur gagnvart rómönsku fólki.

Á fimmtudag fjölluðu bandarískir fjölmiðlar hins vegar um að ekki væri víst að náðun forsetans næði í gegn að ganga. Hafði Susan Bolton, dómari í máli Arpaio, þá frestað dómsuppkvaðningu í máli hans en ekki vísað málinu frá. Sagði Bolton að hún þyrfti að fara yfir málsgögn áður en hún felldi sakfellingu Arpaio niður.

Arpaio var tíður gestur á fjöldafundum Trump í kosningabaráttunni. Þeir hafa verið bandamenn frá því að báðir sökuðu Barack Obama um að vera ekki löglegur forseti.Vísir/AFP

Íslandsvinurinn Arpaio

Joe Arpaio skipar athyglisverðan sess í íslenskri réttarsögu en hann lék lykilhlutverk í máli sem rekið var fyrir íslenskum dómstólum árið 1997. Málið varðaði kröfu bandarískra stjórnvalda um framsal hjónanna Connie Jean og Donalds Hanes sem dvöldu hér á landi. Þeim var gefið að sök að hafa numið barnabarn sitt á brott með ólöglegum hætti og höfðu ákærur verið gefnar út í Bandaríkjunum vegna þeirra sakargifta. Þegar hér var komið sögu hafði barnið þegar verið tekið úr umsjá hjónanna og komið í hendur móður sinnar í Bandaríkjunum. Mál hjónanna hlaut mikla athygli bæði hér á landi og vestanhafs. Voru því meðal annars gerð skil í þætti af Unsolved Mysteries.

Hjónin voru sannfærð um að þau myndu hvorki njóta mannúðlegrar meðferðar né réttlátrar málsmeðferðar yrðu þau framseld til Bandaríkjanna. Helsta ástæða þessa ótta hjónanna var sjálfur Joseph M. Arpaio, lögreglustjóri Maricopa-sýslu í Arizona. Hjónin höfðu ítrekað boðist til að gefa sig fram gegn skilyrðum um mannúðlega og réttláta meðferð við komu til Bandaríkjanna en fengu ekki svar.

Hræddust slæma meðferð

Í úrskurði héraðsdóms eru ítarlegar lýsingar á hörmulegri meðferð á föngum í fangelsum í Maricopa-sýslu. Fyrir lá að ef framsalið yrði heimilað myndu löggæsluyfirvöld í Arizona taka við hjónunum við komuna til Bandaríkjanna og flytja þau til Arizona. Fyrirkomulag og framkvæmd flutningsins yrði í höndum Arpaios lögreglustjóra og yrði ómannúðlegt og vanvirðandi.

Meðal gagna málsins var ársgamalt bréf mannréttindadeildar bandaríska dómsmálaráðuneytisins, sem ritað var í kjölfar rannsóknar ráðuneytisins á ætlaðri óhóflegri valdbeitingu gagnvart föngum og skorti á heilbrigðisþjónustu við þá í fangelsum Maricopa-sýslu. Í bréfinu eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við aðstæður og meðferð fanga í fangelsunum, þar sem hjónin yrðu vistuð meðan meðferð refsimálsins í Bandaríkjunum stæði yfir. Lýsingar eru ítarlegar í úrskurði héraðsdóms og þar er einnig vísað til fjölda blaðagreina sem fjalla um slæman og ómannsæmandi aðbúnað í fangelsum undir stjórn Arpaios. Tekið er fram að ekkert liggi fyrir um að ástandið hafi batnað.

Í niðurstöðu héraðsdóms er því slegið föstu að meðferð fanga í fangelsum Maricopa-sýslu brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu um bann við pyndingum og ómannúðlegri meðferð. Í niðurstöðunni segir meðal annars:

„Þykja vera komin fram nægileg gögn í málinu sem ekki hafa verið hrakin af ákæruvaldinu, að hætt sé við, að þar muni bíða þeirra ómannúð­leg meðferð. Þegar þetta er virt þykja ekki vera lagaskilyrði til að framselja varnaraðila til Bandaríkja Norður-Ameríku.“
Úrskurður héraðsdóms var staðfestur í Hæstarétti, meðal annars á þeim forsendum að íslensk stjórnvöld hefðu ekki gætt meðalhófs við meðferð málsins. Hjónin hefðu frá upphafi lýst sig reiðubúin til að fara til ættlands síns og standa þar ábyrg gerða sinna og lýst árangurslausum tilraunum sínum til að ná samkomulagi við bandarísk stjórnvöld um eðlilega og mannúðlega framkomu. Afstaða þeirra hafi gefið íslenskum stjórnvöldum skýrt til kynna að ná mætti því markmiði að fá þau leidd fyrir dóm í Bandaríkjunum, án þess þau þyrftu að þola þau óþægindi af handtöku sem áður var lýst og hefði óhjákvæmilega leitt af skilyrðislausu framsali. „Bar íslenskum stjórnvöldum við þessar aðstæður og í ljósi ríkra hagsmuna varnaraðila í málinu að ganga til móts við réttmæt sjónarmið þeirra.“

Fór út og fékk vægan dóm

Connie dvaldi á Íslandi alla tíð eftir niðurstöðu Hæstaréttar. Hún er nýlega látin. Donald Hanes fór sjálfviljugur til Bandaríkjanna eftir niðurstöðu Hæstaréttar. Þar var hann handtekinn og fluttur í fangelsi í Maricopa-sýslu og sat inni meðan mál hans var rekið fyrir dómstólum. Hann fékk vægan dóm, ekki síst vegna þess að hann gaf sig sjálfviljugur fram og var látinn laus strax eftir að dómur féll.


Tengdar fréttir

Trump gagnrýndur fyrir náðun umdeilds fógeta

Háttsettir repúblikanar eru á meðal þeirra sem fordæma náðun Trump á umdeildum fógeta frá Arizona. Sá hefur lengi verið sakaður um ómannúðlega meðferð á föngum, ofsóknir gegn innflytjendum og önnur embættisbrot í gegnum tíðina.

Trump náðar hinn umdeilda lögreglustjóra Arpaio

Joe Arpaio var fundinn sekur um að hafa virt að vettugi réttartilskipun um að hætta að láta lögreglumenn við umferðareftirlit stöðva þá sem þeir töldu vera innflytjendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×