Innlent

Síbrotamaður dæmdur í níu mánaða fangelsi

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Maðurinn var dæmdur fyrir fjórtán fíkniefnalagabrot.
Maðurinn var dæmdur fyrir fjórtán fíkniefnalagabrot. Vísir/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í fyrradag karlmann á þrítugsaldri í níu mánaða fangelsi fyrir á þriðja tug lögbrota. Brotin voru framin á um tíu mánaða tímabili eða fram til maí á þessu ári.

Maðurinn, sem játaði sök, gerðist sekur um fjórtán fíkniefnalagabrot, fimm umferðarlagabrot, nytjastuldi og brot á vopnalögum. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 8. maí síðastliðnum en dvölin þar dregst frá refsingunni. Þá voru gerð upptæk hnífur, sverð og fíkniefni, þar á meðal 118 e-töflur, sem lögreglan hafði lagt hald við rannsókn málsins.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn eigi að baki sakaferil.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×