Innlent

Bjarni lét Bjarta framtíð heyra það

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í Valhöll
Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í Valhöll Vísir/Ernir
Það kom Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra algjörlega í opna skjöldu þegar hann heyrði af því að Björt framtíð hefði ákveðið að slíta stjórnarsamstarfinu við Viðreisn og Bjarta framtíð.

Hann sagði þetta á blaðamannafundi í Valhöll í dag. Hann sagði frá því að hann hefði ákveðið að greina flokksformönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar frá því að faðir hans hefði verið einn þeirra sem veitti meðmæli á umsókn dæmds kynferðisbrotamanns um uppreist æru.

Þetta gerði hann vegna þess að hann hafði frétt af því að fjölmiðlar væru með þær upplýsingar undir höndum og að þær myndu rata í opinbera umræðu. Bjarni sagði að sér hefði fundist það skrýtið að Björt framtíð hefði borið við trúnaðarbresti vegna ákvörðunar um að slíta stjórnarsamstarfinu.

Hann sagði að málið hefði ekki hlotið sérmeðferð og það hefði átt að horfa til þess. Hann sagði með ólíkindum að Íslendingum ætli ekki að takast að fá festu í stjórnarsamstarfinu þrátt fyrir að það gangi vel í þjóðfélaginu.

Hann sagði það ákveðin veikleikamerki hjá stjórnmálaöflum að bregðast við með því að hlaupa frá stjórnarsamstarfinu eftir að hafa séð fréttir og gefa sér ekki tíma til að setjast niður og ræða saman. 

Haldnar væru rafrænar kosningar og stjórnarsamstarfinu slitið því sem næst samstundis áður en hægt var að ræða málin saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×