Erlent

Spænska lögreglan mun reyna að loka kjörstöðum

Þórdís Valsdóttir skrifar
Katalónsku lögreglunni hefur verið skipað að koma í veg fyrir opnun kjörstaða á sunnudag.
Katalónsku lögreglunni hefur verið skipað að koma í veg fyrir opnun kjörstaða á sunnudag. Vísir/getty
Ekkert verður úr þjóðaratkvæðagreiðslu Katalóna sem fara átti fram næstkomandi sunnudag ef marka má orð talsmanns spænsku ríkisstjórnarinnar. Spænska ríkisstjórnin segir þjóðaratkvæðagreiðsluna ólögmæta.

Katalónska lögreglan, Mossos d‘Esquarda, hefur fengið skipanir frá yfirboðurum sínum um að loka öllum kjörstöðum fyrir klukkan 6 að morgni sunnudags. Til stóð að kjörstaðir myndu opna klukkan 9.

Talið er að viðbrögð lögregluliðs katalóníumanna við skipununum muni skipta sköpum við það hvort af atkvæðagreiðslunni verður.

Yfirmaður spænsku lögreglunnar, Josep Lluis Trapero, gaf undirmönnum sínum þau fyrirmæli að heimsækja alla 2.315 kjörstaði Katalóníumanna og gera kjörseðla og önnur kjörgögn upptæk. Í fyrirmælunum kom einnig fram að lögregluþjónar ættu ekki að notast við vopn eða neyta aflsmunar nema við það að koma kjósendum af kjörstað ef nauðyn krefur.

Þúsundir lögreglumanna hafa verið fluttir frá öðrum hlutum Spánar til að aðstoða við lokunina.

Héraðsstjórn Katalóníu og ríkisstjórn funduðu í gær og reyndu að ná sáttum, án árangurs. Héraðsstjórn Katalóníu segja að þeir muni lýsa yfir sjálfstæði 48 klukkustundum eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er sú að meirihluti Katalóníumanna vilja sjálfstæði.


Tengdar fréttir

Spenna vex í Katalóníu

Katalónar greiða atkvæði á sunnudag um hvort þeir eigi að lýsa yfir sjálfstæði. Forseti héraðsins segir stjórnvöld í Madríd koma fram við þá sem ógn við þjóðaröryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×