Innlent

Brúin lokuð fyrir akandi og gangandi umferð

Birgir Olgeirsson skrifar
Eins og sjá má á myndinni er mjög sýnileg dæld í brúnni yfir Steinavötn.
Eins og sjá má á myndinni er mjög sýnileg dæld í brúnni yfir Steinavötn. Íris Ragnarsdóttir Pedersen
Lögreglan hefur birt tilkynningu um lokanir og umferðartakmarkanir vegna vatnsflóða á Suðurlandi. Vegurinn frá Steinavötnum er lokaður til austurs. Þjóðvegurinn við Lambaleiksstaði er í sundur þar rétt austan við og afmarkar það því þá það svæði sem er án samgangna á landi. Brúin yfir Steinavötn er lokuð allri umferð, hvort sem er akandi eða gangandi.

Lögreglan segir Vegagerðina vera komna á fullt skrið við vinnu að því að beina vatni frá varnargörðum á flóðasvæðinu á Mýrum svo unnt sé að oka þeim stöðum þar sem þeir hafa rofnað. Hefur brúin við Steinavötn enn sigið nokkuð í morgun og er lokuð allri umferð, hvort sem er akandi eða gangandi. Er unnið að því að verja stöpul sem grafið hefur undan en þegar því lýkur verður hægt að meta hvort einhverri umferð verður hægt að hleypa yfir hana. 

Þá er verið að ferja á svæðið tæki og efnivið í bráðabirgðabrú í stað þessarar. Vonir standa til að á sunnudag verði búið að setja í þau rof sem eru í veginum þannig að þá verður opið fyrir aðgang á landi inn á svæðið.

Björgunarsveitir eru búnar að hnita leiðir til að komast um ef um neyðartilfelli er að ræða.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru nú nýttar við flug á svæðinu og verður önnur þerra til taks a.m.k. fram á morguninn. Miðað er við að nota þessi flug við nauðsynlegustu flutninga inn á svæðið.

Lögreglan segir Björgunarfélagið á Höfn bera hitann og þungann af þessu starfi en stjórnun aðgerða er sinnt frá húsnæði félagsins á Höfn. Björgunarsveitarmenn eru nú að aðstoða bændur við smölun en eitthvað er um að búfénaður sé umflotinn á hæðum og hólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×