Erlent

Forsvarsmenn Twitter svara spurningum þingmanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrir kosningarnar í fyrra komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að um 400 þúsund sjálfvirkir Twitter-reikningar, eða svokallaðir bottar, hefðu tekið þátt í umræðunni um forsetakosningarnar.
Fyrir kosningarnar í fyrra komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að um 400 þúsund sjálfvirkir Twitter-reikningar, eða svokallaðir bottar, hefðu tekið þátt í umræðunni um forsetakosningarnar. Vísir/AFP
Forsvarsmenn samfélagsmiðilsins Twitter munu í dag mæta fyrir nefnd öldungadeildar bandaríkjaþings um njósnamál og svara spurningum þingmanna um Twitter, forsetakosningarnar í fyrra og tilraunir Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar. Meðal annars munu þingmennirnir spyrja hvort að Twitter hafi verið notað af Rússum til að dreifa fölskum upplýsingum sem ætlað var að skaða framboð Hillary Clinton og hvort að fyrirtækið hafi gripið til aðgerða til að reyna að koma í veg fyrir það.

Sviðsljósið hefur verið á Facebook undanfarnar vikur. Komið hefur í ljós að Rússar hafi keypt rúmlega þrjú þúsund auglýsingar á samfélagsmiðlinum og beint þeim að notendum í Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt Politico vilja forsvarsmenn Twitter ekki gefa upp hvað þeir muni segja þingmönnunum.



Fyrir kosningarnar í fyrra komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að um 400 þúsund sjálfvirkir Twitter-reikningar, eða svokallaðir bottar, hefðu tekið þátt í umræðunni um forsetakosningarnar. Jafnvel hefðu um 19 prósent allra tísta um kosningarnar komið frá þeim reikningum.



Samkvæmt frétt New York Times, voru slíkir reikningar notaðir til að dreifa fölskum fréttum og upplýsingum sem rússneskir hakkarar höfðu stolið úr tölvukerfi Demókrataflokksins.



Þá segir NYT einnig frá rannsakendum sem hafa fylgst með rússneskum útsendurum á Twitter á síðustu vikum. Þeir munu hafa einbeitt sér að umræðunni um mótmæli íþróttamanna gegn kynþáttahatri og jafnvel hafi þeir verið að dreifa niðrandi og fölskum tístum um Hillary Clinton og jafnvel dóttir hennar.

Þingmaðurinn Adam Schiff sagði í viðtali nýverið að tæknifyrirtæki hefðu leitað aðstoðar frá leyniþjónustum Bandaríkjanna við að koma í veg fyrir að önnur ríki geti notað tækni þeirra og vörur eins og hér ræðir um.

Til stendur að halda opin nefndarfund þann 1. nóvember og hefur Facebook, Twitter og Google verið boðið að senda fulltrúa sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×