Innlent

Um 50 manns hafa komið í fjöldahjálparstöðvar á Suðausturlandi í dag

Þórdís Valsdóttir skrifar
Vegir á Suðausturlandi eru illa farnir eftir úrhellisrigningu síðustu daga. Óskað hefur verið eftir því að þyrla Landhelgisgæslunnar fari á svæðið í fyrramálið til að meta aðstæður.
Vegir á Suðausturlandi eru illa farnir eftir úrhellisrigningu síðustu daga. Óskað hefur verið eftir því að þyrla Landhelgisgæslunnar fari á svæðið í fyrramálið til að meta aðstæður. Vísir/Agnar Benediktsson
Um 50 ferðamenn hafa leitað í fjöldahjálparstöðvar sem Lögreglan á Suðurlandi opnaði í Hofgarði og Mánagarði fyrr í dag.

Þjóðvegi 1 var lokað í dag vegna mikilla vatnavaxta á svæðinu og var vegurinn grafinn í sundur á þremur stöðum.

Friðrik Jónas Friðriksson, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, segir að öllum þeim sem leituðu til fjöldahjálparstöðvanna tveggja hafi verið fundin gisting á öðrum gistiheimilum á svæðinu.

Friðrik telur að ekki muni fleiri leita til fjöldahjálparstöðvanna í kvöld og í nótt. „Við höldum að allir séu komnir í hvíld núna en við ætlum að manna stöðvarnar í nótt að beiðni lögreglu ef ske kynni að einhverjir kæmu.“

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir rigningu þar til síðdegis á morgun. Vegurinn er illa farinn og gert er ráð fyrir því að vegurinn verði lokaður í það minnsta tvo til þrjá daga enn.

„Búið er að óska eftir því að þyrla Landhelgisgæslunnar komi hingað í fyrramálið til þess að meta aðstæður. Þá getur Vegagerðin gert sér grein fyrir því hvað gerðist og hvar vatnið er að koma inn á svæðið. Menn vita það ekki ennþá,“ segir Friðrik.


Tengdar fréttir

Aldrei séð svona mikið úrhelli

Þetta er það mesta sem ég nokkurn tímann séð. Sama segir pabbi, segir Eiður Ragnarsson á Bragðavöllum í Hamarsfirði á Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×