Erlent

Tyrkir hóta Kúrdum aðgerðum eftir kosningar um sjálfstæði

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Íraskur Kúrdi slappar af daginn eftir kjördag. Mögulegt er að hann hafi kosið með sjálfstæði á mánudag líkt og 90 prósent Kúrda.
Íraskur Kúrdi slappar af daginn eftir kjördag. Mögulegt er að hann hafi kosið með sjálfstæði á mánudag líkt og 90 prósent Kúrda. vísir/afp
Kosningarnar um sjálfstæði íraskra Kúrda sem haldnar voru á mánudag eru svik og gætu orðið til þess að þjóðflokkurinn svelti. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í gær.

Kosningarnar voru haldnar í óþökk Íraksstjórnar sem og flestra bandamanna hennar í baráttunni gegn Íslamska ríkinu, þar með talin eru Bandaríkin og Tyrkland. Einungis höfðu um tíu prósent atkvæða verið talin í gær. Þá benti allt til yfirgnæfandi sigurs sjálfstæðissinna enda var hakað við já á 93,29 prósentum talinna kjörseðla. Kjörsókn er sögð um 72 prósent.

Passar það ágætlega við yfirlýsta stefnu flokka á héraðsþingi Íraska Kúrdistan. Þar hafa tveir flokkar lagst gegn sjálfstæði með samanlagt þrjá þingmenn. Hins vegar styðja tólf flokkar sjálfstæði með samanlagt 105 þingmenn.

Fjöldi Kúrda býr einnig í Tyrklandi og hafa þeir lengi deilt við yfirvöld í Tyrklandi. Erdogan var því harðorður í garð íraskra Kúrda í gær. Sagði hann að allar mögulegar aðgerðir, hernaðarlegar jafnt sem efnahagslegar, kæmu til greina til að tryggja öryggi Tyrkja.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.vísir/epa
Tyrklandsforseti hafði áður hótað því að koma í veg fyrir olíuflutninga Kúrda sem og að skera á alla birgðaflutninga til Íraska Kúrdistan frá Tyrklandi. Það gæti leitt til þess að íraskir Kúrdar myndu svelta. „Ákvörðunin um að halda þessar kosningar, sem var tekin án samráðs, telst til svika,“ sagði Erdogan í ræðu sinni í forsetahöllinni í Ankara í gær.

Leiðtogar íraskra Kúrda hafa þó sagt að þótt meirihluti kjósi með sjálfstæði myndi það ekki þýða tafar­lausa sjálfstæðisyfirlýsingu. Það myndi einungis veita umræddum leiðtogum umboð til að hefja viðræður við yfirvöld í Írak og nærliggjandi ríkjum.

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, hefur hins vegar útilokað möguleikann á slíkum viðræðum. „Við erum ekki tilbúin til að ræða um niðurstöður þessara kosninga af því þær standast ekki stjórnarskrána,“ sagði forsætisráðherrann á mánudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×