Innlent

Eignir Magnúsar kísilkóngs kyrrsettar

Jakob Bjarnar skrifar
Bótakrafan á hendur Magnúsi af hálfu United Silicon eru 540 milljónir króna og nú hafa eignir hans hérlendis verið kyrrsettar.
Bótakrafan á hendur Magnúsi af hálfu United Silicon eru 540 milljónir króna og nú hafa eignir hans hérlendis verið kyrrsettar.
Sýslumaður hefur fallist á óskir stjórnar United Silicon um að eignir Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra kísilversins, hér á landi verði kyrrsettar. Fréttablaðið greindi í morgun frá því að beiðni þessa efnis lægi fyrir og nú hefur þetta sem sagt komið á daginn.

Eins og fram hefur komið er fyrirtækið í greiðslustöðvun og vill tryggingu fyrir bótakröfu sem það hefur gert á hendur Magnúsi í kæru til embættis héraðssaksóknara. Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, segir í samtali við Vísi að bótakrafan nemi 540 milljónum króna.

Stjórnin telur að Magnús hafi dregið sér um hálfan milljarð króna með fölsuðum og tilhæfulausum reikningum útgefnum af ítalska fyrirtækinu Tenova Pyromet sem bæði hannaði og seldi kísilverinu ljósbogaofn. Magnús sjálfur hefur vísað þeim ásökunum á bug og sagt að þær séu algerlega úr lausu lofti gripnar.

Fréttastofu er ekki kunnugt um hvaða eignir þetta eru en Vísir hefur greint frá miklum bílaáhuga Magnúsar og það að hann hafi stundað hraðakstur á 20 milljóna króna Teslabifreið sinni. Eftir því sem næst verður komist var sú bifreið Magnúsar gerð upptæk vegna glæfraaksturs.

Þá greindi Vísir frá því um miðjan þennan mánuð að einbýlishús Magnúsar í Kópavogi væri auglýst til sölu. Húsið er 304 fermetrar að stærð og var ásett verð 150 milljónir króna. Fasteignaauglýsingin hefur nú verið tekin úr birtingu.


Tengdar fréttir

Vill kyrrsetningu á eignum Magnúsar

United Silicon hefur óskað eftir að eignir Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra United Silicon, hér á landi verði kyrrsettar. Fyrirtækið vill tryggingu fyrir bótakröfu á hendur honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×