Erlent

Trump slær heimboð til NBA-meistaranna af borðinu

Anton Egilsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki áhuga á því að liðsmenn Golden State Warriors í heimsókn.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki áhuga á því að liðsmenn Golden State Warriors í heimsókn. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur dregið heimboð sitt til NBA-meistaranna í Golden State Warriors til baka en um er að ræða árlega hefð.  Í leiðinni skaut hann á helstu stjörnu liðsins, Stephen Curry, en sá hefur ýjað að því að hann myndi ekki þiggja heimboð forsetans. 

„Að fá að fara í Hvíta húsið er talið mikill heiður fyrir meistaralið. Stephen Curry er hikandi og þar af leiðandi er heimboðið dregið til baka” segir Trump í færslu Twitter-síðu sinni í dag.

Curry hafði áður gefið það út að hann myndi líklega ekki þiggja boð í Hvíta húsið. „Ég mun persónulega gera það sem ég tel vera rétt fyrir mig. Liðið mun svo örugglega ræða þetta í sameiningu síðar,“ sagði Curry og bætti við:„Ég hugsaði um þetta fyrir svona tveim mánuðum síðan og þá fannst mér líklegt að ég færi ekki. Ég er enn á sömu skoðun.“

Það hefur verið árleg hefð að leikmenn NBA-meistaraliðsins fái boð í Hvíta húsið en hefðina má rekja allt til forsetatíðar Ronalds Reagan. Nú bendir þó ekkert til annars en að sú hefð verði rofin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×