Um fimmhundruð manns eru nú að störfum á iðnaðarlóðinni á Bakka við Húsavík en þar er smíði kísilvers þýska félagsins PCC á lokametrunum. Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir frá framkvæmdum og rætt við þá Hafstein Viktorsson, forstjóra PCC Bakka Silicon, og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóra Norðurþings.
Þetta er mesta iðnaðaruppbygging í sögu Norðurlands en áætlað er að smíði kísilversins kosti um 34 milljarða króna. Mannvirkin á Bakka eru nú hvert af öðru að taka á sig endanlega mynd og það hyllir undir gangsetningu. Það er þýska fyrirtækið SMS sem reisir verksmiðjuna fyrir PCC.
Verksmiðjuhúsin eru risin á Bakka.Stöð 2/Arnar Halldórsson.„Við erum bara á lokametrunum. Mitt starfsfólk hérna á Bakka er að byrja að taka við verksmiðjunni,” segir Hafsteinn, forstjóri PCC. Það ferli standi fram í desember. Í lok þessa árs eða byrjun þess næsta verði sett í gang.
Framkvæmdirnar eru nú í hámarki og um 500 manns að störfum á Bakka þessa dagana. Á Húsavík fylgjast ráðamenn spenntir með.
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.Stöð 2/Arnar Halldórsson.„Þetta hefur gengið stóráfallalaust og í reynd bara ótrúlega vel,” segir Kristján Þór sveitarstjóri.
„Hér hafa ekki orðið nein slys eða alvarleg tilfelli og allir verkþættir meira og minna á áætlun. En eins og gengur í stórum verkefnum er alltaf eitthvað eftirá og annað gengur betur. En heilt yfir erum við á tíma,” segir Hafsteinn.
Í fyrirtækinu verða til yfir eitthundrað varanleg störf á Húsavík. Verksmiðjunni er ætlað að framleiða 32 þúsund tonn af kísilmálmi á ári í tveimur bræðsluofnum sem búið er að koma fyrir í ofnhúsinu.
Tveir bræðsluofnar verða í þessum fyrri áfanga kísilversins.Stöð 2/Arnar Halldórsson.„Núna eru í gangi prófanir á tækjum jafnhliða því sem við erum að klára bygginguna sjálfa. Þær prófanir munu taka næstu mánuði. Það verður ekki sett í gang fyrr en það eru komin öll græn ljós, allt verður tilbúið og allir eru sáttir við að við séum með öll tæki og öll kerfi í lagi,” segir forstjóri PCC á Bakka.
Iðnaðarsvæðið á Bakka séð úr lofti. Húsavík er ofarlega til hægri.Stöð 2/Arnar Halldórsson.„Ég held að það séu bara allir spenntir að sjá hvort þetta fari ekki bara allt saman vel, eins og stefnt er að,” segir sveitarstjórinn.