Innlent

Segir öfluga aðila standa á bak við áform í Össurárdal

Kristján Már Unnarsson skrifar
Séð yfir Svínhóla í Lóni. Ofan við bæjarhúsin liggur hringvegurinn við rætur fjallsins.
Séð yfir Svínhóla í Lóni. Ofan við bæjarhúsin liggur hringvegurinn við rætur fjallsins. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Smíði hótels og íbúða fyrir tvöhundruð gesti á jörðinni Svínhólum í Lónssveit er nú í undirbúningi. Bæjarstjóri Hornafjarðar segir þetta mjög spennandi áform og þeim tengist hugmyndir um alþjóðaflugvöll í sveitarfélaginu. Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2

Jörðin Svínhólar komst raunar í fréttirnar árið 1970 þegar hún þótti vænlegust á Íslandi til leitar að góðmálmum.  Ítarleg rannsókn það sumar leiddi hins vegar ekkert það magn í ljós sem borgaði sig að vinna, þótt eitthvað fyndist af kopar. En nú sjá fjárfestar önnur tækifæri í Svínhólum.

Össurárdalur er óbyggður dalur sem gengur inn í fjalllendið norðan Svínhóla.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Fréttablaðið greindi frá því í sumar að One-hreyfingin undir forystu Áslaugar Magnúsdóttur stæði á bak við þessi áform en Áslaug hefur skapað sér nafn í tískuheiminum í New York. Sjálf hefur Áslaug ekkert viljað tjá sig um áformin en í skipulagsgögnum sveitarfélagsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að byggt verði upp í Össurárdal, sem er í landi Svínhóla. 

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Hornafjarðar.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Það eru mjög spennandi áform sem þar eru í gangi,“ segir Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Hornafjarðar, og segir þetta verða stærra í sniðum en hótelið sem opnað var á Hnappavöllum í Öræfum í fyrra. Þetta verði hundrað herbergja hótel með íbúðum og þessháttar. 

Lónssveit er á Suðausturlandi, milli Hafnar og Djúpavogs, sem eru næstu þéttbýlisstaðir. Í Fréttablaðinu í sumar kom fram að Áslaug hefði keypt land í Lóninu en samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 er stefnt að því að bæði innlendir og alþjóðlegir fjárfestar komi að verkefninu. 

„Þarna á bak við er ábyrgt fólk, sem er með öfluga aðila með sér. Þannig að ég hef trú á því að þetta geti orðið að veruleika,“ segir Björn Ingi. 

Bæjarstjórinn segir að þessu tengist áhugi á að Hornafjarðarflugvöllur verði opnaður fyrir alþjóðaflug. 

„Fólk sem hefur áhuga á að koma á þennan stað myndi geta flogið beint til Hafnar. Við erum að sjálfsögðu mjög spennt fyrir því.“

Frá Hornafjarðarflugvelli. Jetstream-vél Flugfélagsins Ernis í flugtaksbruni.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Flugbrautin á Hornafirði er 1500 metra löng og gæti án lengingar tekið við minni þotum. 

„Ef menn náttúrlega fara í fulla stærð á alþjóðaflugvelli þá þurfum við sjálfsagt að horfa á ennþá stærra landssvæði. Það er alveg klárlega til í sveitarfélaginu. Það getur verið að við þyrftum að fara á einhvern annan stað en nákvæmlega þarna, ef við náum þessu alla leið,“ segir bæjarstjóri Hornafjarðar. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 með myndum frá Svínhólum og Össurárdal:


Tengdar fréttir

ONE hreyfingin byggir upp samfélag í Lóni

Áslaug Magnúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Moda Operandi, er einn aðstandanda ONE hreyfingarinnar. Hreyfingin stefnir að því að byggja upp sjálfbært samfélag, hótel, íbúðir og frumkvöðlaaðstöðu í Austur-Skaftafellssýslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×