Erlent

Sagðir vera að flytja eldflaugar

Samúel Karl Ólason skrifar
Norður-Kórea hefur ítrekað gert tilraunir með eldflaugar, þvert á ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, á undanförnum mánuðum og jafnvel sprengt sína stærstu kjarnorkusprengju hingað til.
Norður-Kórea hefur ítrekað gert tilraunir með eldflaugar, þvert á ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, á undanförnum mánuðum og jafnvel sprengt sína stærstu kjarnorkusprengju hingað til. Vísir/EPA
Fjölmiðlar í Suður-Kóreu segja að nágrannar þeirra í Norður-Kóreu hafi flutt nokkrar eldflaugar frá verksmiðju ríkisins í Pyongyang. Það sé til marks um að frekar eldflaugatilraunir verði gerðar þar í landi á næstunni.

Samkvæmt frétt Reuters um málið munu leyniþjónustur Suður-Kóreu og Bandaríkjanna hafa greint flutning eldflauganna en ekki liggur fyrir hvert þær voru fluttar. Talið er að um tvær mögulegar tegundir eldflauga sé að ræða.

Önnur er Hwasong-12 sem er meðaldræg eldflaug og hin er Hwasong-14, sem er langdræg eldflaug.

Embættismenn í Suður-Kóreu hafa lýst yfir áhyggjum af því að Norður-Kórea gæti gert frekari tilraunir með eldflaugar í aðdraganda afmælis stofnunar Kommúnistaflokks ríkisins þann 10. október. Norður-Kórea hefur ítrekað gert tilraunir með eldflaugar, þvert á ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, á undanförnum mánuðum og jafnvel sprengt sína stærstu kjarnorkusprengju hingað til.

Gífurleg spenna er á svæðinu og hafa hótanir gengið á víxl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×