Innlent

Landlæknir telur þörf á heildarstefnu í heilbrigðismálum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Landlæknir telur þörf á heildarstefnu í heilbrigðismálum hér á landi og segir að einkavæðing innan greinarinnar hafi ekki tekið mið af hagsmunum sjúklinga.

BSRB boðaði í dag til fundar undir yfirskriftinni Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu - hver er hagur sjúklinga -  en meðal frummælenda var Birgir Jakobsson landlæknir.

Birgir hefur áður gagnrýnt það sem hann kallar stjórnlausa einkavæðingu innan greinarinnar og segir hana ekki hafa tekið mið af hagsmunum sjúklinga.

„Hingað til getum við sagt að aukning á einkarekstri hefur í raunverulega stýrst af framboði á sérgreinalæknum en hefur lítið stuðst við þarfagreiningar á þörfum sjúklinga,“ segir Birgir.

Hann segir að núverandi greiðslukerfi virki letjandi fyrir opinbera aðila en hvetjandi fyrir einkaðila. Þá sé það óheppilegt að sérfræðingar séu bara í hlutavinnu á Landspítalanum og draga megi í efa að þeir setji hagsmuni spítalans í forgang. Einkavæðingin hafi þannig aukist á kostnað opinberrar þjónustu og kallar Birgir eftir heildarstefnu í málaflokknum áður en lengra er haldið.

„Við eigum að staldra við varðandi einkavæðinguna. Segja stopp í bili og síðan þegar við erum búin að byggja upp sterkt opinbert kerfi þá getum við farið að ræða málið og séð hvernig við getum bætt þetta opinbera kerfi og komið aðeins inn með einkarekstur líka. Það gera nágrannalöndin núna þegar þau reyna laga gallana á opinbera kerfinu,“ segir Birgir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×