Erlent

Loftmengun alls staðar yfir viðmiðunarmörkum í London

Kjartan Kjartansson skrifar
Sumir íbúar London hafa mótmælt viðvarandi loftmengun í borginni.
Sumir íbúar London hafa mótmælt viðvarandi loftmengun í borginni. Vísir/AFP
Mælingar á loftgæðum í London benda til þess að í öllum hverfum borgarinnar fari mengun yfir alþjóðleg viðmiðunarmörk. Nærri því allir borgarbúar búa á svæðum þar sem mengun er helmingi meiri en æskilegt getur talist.

Styrkur mengandi rykagna í flokknum PM2.5 í miðborg London er nærri því tvölfalt hærri en viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), að því er kemur fram í frétt The Guardian. Mörkin eru 10 míkrógrömm á hvern rúmmetra lofts.

Rykagnir af þessu tagi geta haft alvarleg áhrif á heilsu fólks. Þær geta meðal annars aukið hættuna á öndunar- og hjarta- og æðasjúkdómum. Hættan er einna mest fyrir börn en mengunin getur valdið því að þau þrói með sér astma síðar á lífsleiðinni.

Mengun enn yfir mörkum þrátt fyrir tilskipun dómstóls

Sadiq Khan, borgarstjóri London, segir niðurstöður mælinganna „ógeðslegar“. Ekki síst er það sú staðreynd að 95% borgarbúa, um 7,9 milljónir manna, búi við loftmengun sem er 50% meiri en WHO dregur mörkin við.

„Við ættum að skammast okkur fyrir að að unga fólkið okkar, næsta kynslóð Londonbúa, verði fyrir þessum örsmáum rykögnum sem skaða alvarlega lungun þeirra og stytta lífslíkur þeirra,“ segir Khan.

Það er ekki aðeins í London sem loftgæði eru slök á Bretlandi. Alls er styrkur rykagna yfir mörkum í 37 af 43 skilgreindum svæðum þar. Sú staða er óbreytt frá árinu 2015 þrátt fyrir að æðsti dómstóll landsins hafi skipað ríkisstjórninni að grípa til tafarlausra aðgerða til að ráða bót á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×