Innlent

Dómur þyngdur yfir manni sem hafði 42 milljónir af Alzheimer-sjúklingi

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur þyngdi í dag dóminn í 12 mánaða fangelsisvist en fullnustu níu mánaða hennar skuli frestað skilorðsbundið í þrjú ár.
Hæstiréttur þyngdi í dag dóminn í 12 mánaða fangelsisvist en fullnustu níu mánaða hennar skuli frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Vísir/GVA

Hæstiréttur Íslands þyngdi í dag dóm yfir rúmlega fimmtugum karlmanni sem hafði verið fundinn sekur um að láta níræðan Alzheimer-sjúklinginn leggja inn á sig 42 milljónir króna.

Héraðsdómur Austurlands hafði dæmt manninn til níu mánaða fangelsisvistar í fyrra, en að fullnustu sex mánaða refsingarinnar yrði felld niður haldi hann skilorði í tvö ár.

Hæstiréttur þyngdi í dag dóminn í 12 mánaða fangelsisvist en fullnustu níu mánaða hennar skuli frestað skilorðsbundið í þrjú ár.

Þá þarf maðurinn að endurgreiða níræða manninum milljónirnar 42 sem hann hafði af honum. Þarf maðurinn einnig að greiða vexti af upphæðinni frá árinu 2014, eða þegar brotin áttu sér stað.

Auk þess að vera með Alzheimer var níræði maðurinn jafnframt slæmur á tölur og gat því ekki áttað sig á þýðingu ráðstafanna eða um hve mikið fé var að ræða.

Mennirnir tveir þekkjast mjög vel og hafa gert í fleiri áratugi, en sá sem framdi brotinn var í sveit hjá brotaþola.

Umræddar millifærslur áttu sér stað á haustmánuðum ársins 2014. Þá var brotaþoli vistmaður á hjúkrunarheimili en hann hafði flutt þangað ásamt bróður sínum tæpu ári áður.

Brotaþoli bar vitni fyrir dómi. Hann kannaðist við það að hafa farið með sakborningi í bankann en að hann vissi ekki hve mikið hann hefði átt á reikningi sínum. Þar kom fram að honum þótti hans fyrri vinnumaður eiga inni laun vegna vinnu hans á jörð sinni. Þá hafi hann litið á millifærsluna sem lán.

Í dómnum kemur fram ljóst var að brotaþoli byggi við verulega minnisskerðingu. Til að mynda taldi hann að hann byggi enn á jörð sinni, árið væri 1962 og að upphæðin sem hann lagði inn á ákærða hefði verið „kannski tíu þúsund“.

Framburður hins sakfellda fyrir dómi var eilítið á skjön við framburð hans hjá lögreglu. Hjá lögreglu sagði hann að féð væri gjöf frá brotaþola, sem hinn aldni maður bauð að fyrra bragði, en fyrir dómi var það lán vegna fjárhagsvandræða ákærða. Einnig hafi hann sagt hjá lögreglu að upphæð fyrstu millifærslunnar, 25 milljónir, hefði komið frá honum sjálfum en fyrir dómi þá höfðu þeir ákveðið fjárhæðina í sameiningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×