Fótbolti

"Vildum sýna að þetta var engin heppni“

Tómas Þór Þórðarson í Eskisehir skrifar
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er allur að koma til eftir meiðslin sem voru að hrjá hann síðustu daga og er líklegur að byrja á móti Tyrklandi á morgun í undankeppni HM 2018.

Aron Einar tók virkan þátt í æfingu íslenska liðsins í dag og er bjartsýnn fyrir morgundaginn eftir að útlitið var ekki gott fyrr í vikunni þegar að bakslag kom í meiðslin.

„Standið er bara gott. Ég náði aðeins að taka á því í gær og fann ekkert fyrir því. Ég horfi til þess að ná æfingu í dag og svo verður þetta að koma í ljós. Eins og er þá er ég í góðu standi,“ sagði Aron Einar við íþróttadeild fyrir æfingu Íslands í Eskisehir í dag.

Íslenska liðið stendur nú á barmi þess að komast mögulega í umspil um sæti á HM öðru sinni en strákarnir okkar hafa sýnt mikinn stöðugleika í gæðum undanfarin misseri en fyrirliðinn er stoltur af því. Strákarnir vilja meira og það verður ekkert slakað á.

„Við ætluðum okkur að sýna að þetta var engin heppni að komast á EM, eitthvað sem fólk var stolt af einu sinni og svo bara slappa af. Við vorum svo nálægt því síðast að komast á HM. Það hefði verið rosalegt. Við erum nálægt því núna og við erum ekkert að fara á hælana,“ sagði Aron Einar.

„Við erum á tánum en það eru enn þá tveir leikir eftir og mikið undir. Við erum vanir þessum úrslitaleikjum og erum komnir með ákveðna reynslu úr þeim. Vonandi höfum við lært af fyrri undankeppnum og fyrri úrslitaleikjum. Ég er virkilega ánægður og jákvæður fyrir því hvar við stöndum í dag. Þetta er lið sem er stöðugt og sterkt. Þannig lýsi ég liðinu,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Svona var fundur Heimis og Arons Einars í Eskisehir

Vísir var með beina beina textalýsingu frá blaðamannafundi íslenska landsliðsins í fótbolta í Eskisehir í Tyrklandi þar sem strákarnir okkar mæta Tyrkjum í undankeppni HM 2018 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×