Innlent

Fyrrverandi formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna í framboð fyrir Viðreisn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jarþrúður Ásmundsdóttir segir að afdráttarlaus stefna Viðreisnar í jafnréttismálum og áhersla á frjálslyndar aðferðir hafi heillað.
Jarþrúður Ásmundsdóttir segir að afdráttarlaus stefna Viðreisnar í jafnréttismálum og áhersla á frjálslyndar aðferðir hafi heillað. Viðreisn
Jarþrúður Ásmundsdóttir hefur gengið til liðs við Viðreisn og mun hún taka sæti í einu af efstu sætunum á lista flokksins í Reykjavík fyrir komandi Alþingiskosningar. þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn.

Jarþrúður hefur lengi barist fyrir jafnrétti kynjanna, meðal annars sem formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur sömuleiðis gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá starfaði hún sem formaður Stúdentaráðs HÍ og framkvæmdastjóri Sambands ungra sjálfstæðismanna.

„Ég geng til liðs við Viðreisn vegna afdráttarlausrar stefnu flokksins í jafnréttismálum og áherslu Viðreisnar á að beita frjálslyndum aðferðum við að ná góðum árangri í landsmálum, almenningi til heilla. Ég tel mikilvægt að stjórnmálaafl komist til áhrifa sem tilbúið er að sporna gegn þeirri einangrunarstefnu sem hér hefur verið við lýði og mun beita sér fyrir auknum hag heimilanna með því að koma böndum á gengi íslensku krónunnar og lækka hér vexti,” segir Jarþrúður í tilkynningu.

„Viðreisn hefur sannað sig á stuttum tíma sem stjórnmálaafl sem kemur mikilvægum málum til leiðar, þar má helst nefna jafnlaunavottun og niðurgreiðslu opinberra skulda ásamt því að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir sérhagsmuni fárra.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×