Innlent

Meirihluti leitað til Bjarkarhlíðar vegna heimilisofbeldis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarkarhlíð tók til starfa í mars.
Bjarkarhlíð tók til starfa í mars. vísir/stefán
Alls hafa 193 einstaklingar leitað til Bjarkarhlíðar á þeim sex mánuðum sem liðnir eru frá því að miðstöðin opnaði en Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis burtséð frá kyni. Veitt er samhæfð aðstoð við afleiðingum ofbeldis á einum stað að því er segir í tilkynningu frá Bjarkarhlíð.

Af þeim 193 sem hafa leitað til Bjarkarhlíðar eru 175 konur og 18 karlar og eru Íslendingar í miklum meirihluta þeirra sem hafa leitað þangað, eða alls 171.

Yfir helmingur málanna, eða 56 prósent, eru vegna heimilisofbeldis þar sem andlegt-, líkamlegt- og/eða kynferðisofbeldi kom við sögu. Þá hafa einnig komið inn á borð Bjarkarhlíðar nokkur mál þar sem þjónustuþegar hafa leitað aðstoðar við að komast út úr vændi.

Flestir leituðu sér aðstoðar í Bjarkarhlíð í júlímánuði eða alls 47 manns.

„Í Bjarkarhlíð starfar rannsóknarlögreglukona í fullu starfi, kom hún að málum 106 þjónustuþega fyrstu 6 mánuðina. Flestir leituðu til lögreglu vegna heimilisofbeldis (52) en 39 vegna kynferðisofbeldis. Önnur mál voru 15. Lagðar voru fram 36 kærur í framhaldi af viðtali við lögregluna, 11 vegna heimilisofbeldis, 23 vegna kynferðisofbeldis og 2 vegna annarra brota. Leiða má líkum að því að þessar kærur hefðu ekki komið fram ef ekki hefði verið fyrir þjónustu lögreglunnar í Bjarkarhlíð. Þá voru 24 mál þegar komin í kæruferli hjá lögreglunni fyrir viðtalið í Bjarkarhlíð,“ segir í tilkynningunni.

Bjarkarhlíð er tilraunaverkefni til þriggja ára og samstarfsverkefni níu aðila sem allir hafa mikla þekkingu og reynslu úr málaflokknum.

Þeir aðilar eru Reykjavíkurborg, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Drekaslóð, Stígamót, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvennaráðgjöfin, velferðarráðuneytið og dómsmálaráðuneytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×