Skoðun

Suðurkjördæmisskattur Sjálfstæðismanna

Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar
Vegatollahugmyndir fráfarandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins eru ekkert annað en sérstök skattlagning á suður- og suðvesturhorn landsins og eru því í eðli sínu hróplega óréttlátar. Það að ætla að skattleggja eitt landssvæði umfram annað með þessum hætti er óboðlegt.

Við í Viðreisn höfum verið opin fyrir því að taka pólitíska umræðu um veggjöld, kosti þeirra og galla, byggt á rannsóknum og úttektum sérfræðinga. Um Suðurkjördæmisskatt samgönguráðherra hafði hins vegar aldrei verið tekin nein formleg umræða milli flokkanna. Það eru jafnframt góð rök fyrir því að fara ekki þessa leið. Til dæmis að nær væri að forgangsraða með skýrari hætti þeim ríkisfjármunum sem nú þegar er verið að innheimta, og sannarlega er ætlað er að standa straum af vegagerð, inn í nákvæmlega þann málaflokk, þ.e.a.s. vegagerð. Það er að öllu leyti einfaldara og að líkindum hagkvæmara í framkvæmd.

Að ætla að setja vegatolla einvörðungu á suður- og suðvesturhornið kemur að mínu viti ekki til greina. Sé vilji stjórnmálamanna að skoða einhverskonar útfærslur á vegatollum er réttlátast að það sé gert með heildstæðum hætti, með jafnræðissjónarmið milli landshluta að leiðarljósi. Slíkt fæli í sér að horft væri á landið sem eina heild, þ.e. að litið væri til þess hvernig hægt væri að nýta veggjöld í öllum landshlutum – ekki bara sumum.

 

„Almenningssamgöngur í almannaþágu“ ætti að vera viðkvæðið og  leiðarljósið í allri ákvarðanatöku hjá hinu opinbera varðandi vegagerð á Íslandi. Það er alls óljóst hvernig Suðurkjördæmisskattur samgönguráðherra mætir þessari sjálfsögðu kröfu. Það að skattleggja sérstaklega og einvörðungu þann stóra fjölda fólks og ferðaþjónustufyrirtækja sem sækja vinnu og þjónustu til höfuðborgarsvæðisins nær daglega er óréttlátt. Tugmilljörðum hefur verið varið í samgöngubætur í öðrum landsbyggðarkjördæmum, nú hljóta menn að sjá að komið er að Suðurkjördæmi þar sem umferðin er mest.

Höfundur er varaformaður og oddviti Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×