Viðskipti innlent

200 milljarða yfirtökutilboð í Refresco

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Jón Sigurðsson hefur setið í stjórn Refresco Group frá árinu 2009.
Jón Sigurðsson hefur setið í stjórn Refresco Group frá árinu 2009.
Fjárfestingasjóðurinn PAI Partners gerði í morgun 1,6 milljarða evra yfirtökutilboð í evrópska drykkjarvöruframleiðandann Refresco Group, en stærstu einstöku hluthafar þess eru íslenskir fjárfestar og fyrirtæki. Jafngildir það um 198 milljörðum króna. Stjórn Refresco, sem er skráð á markað í Hollandi, sagðist í tilkynningu myndu skoða tilboðið „vandlega“.

Hlutabréf í félaginu snarhækkuðu um meira en níu prósent í verði eftir að tilkynnt var um tilboðið.

Þetta er í annað sinn á árinu sem fjárfestingasjóðurinn gerir yfirtökutilboð í Refresco. Fyrra tilboðið, frá því í vor, hljóðaði upp á 1,4 milljarða evra en því var hafnað.

Eignarhaldsfélagið Ferskur Holding er stærsti einstaki hluthafi drykkjarvöruframleiðandans með liðlega 14,5 prósenta hlut. Stoðir, áður FL Group, á tæplega níu prósenta hlut í Refresco í gegnum eignarhaldsfélagið, en auk Stoða er Ferskur Holding í eigu Kaupþings og félags í eigu Arion banka og Þorsteins M. Jónssonar, fyrrverandi aðaleiganda Vífilfells og stjórnarmanns í FL Group.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í apríl keyptu íslenskir fjárfestar ásamt TM rúmlega fimmtíu prósenta hlut í Stoðum af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum. Auk TM samanstóð kaupendahópurinn af félögum á vegum Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group, Einari Erni Ólafssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, Örvari Kjærnested, fjárfesti og stjórnarmanni í TM, og Magnúsi Ármanni, fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni í FL Group.

Jón hefur setið í stjórn Refresco frá árinu 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×