Erlent

Mörgæsarungar sultu í hel í hrönnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Dauður adelie-mörgæsarungu sem svalt í hel.
Dauður adelie-mörgæsarungu sem svalt í hel. Vísir/AFP
Aðeins tveir Adelie-mörgæsarungar komust á legg í þyrpingu tuga þúsunda þeirra á austanverðu Suðurskautslandinu. Sérfræðingar lýsa fengitímabili mörgæsanna í ár sem „stórslysi“.

Óvenjumikill hafís nú í lok suðurskautsvetrar olli því að foreldrar unganna þurftu að ferðast hundrað kílómetrum lengri leið eftir fæði. Til að bæta gráu ofan á svart olli vætutíð því að ungarnir urðu blautir og kaldir, að því er segir í frétt The Guardian.

Þegar franskir vísindamenn komu að þyrpingunni þar sem um 18.000 mörgæsir ólu unga á Petrels-eyju fundu þeir aðeins tvo unga á lífi. Þúsundir unga sem höfðu drepist úr hungri og egg sem höfðu ekki klakist út lágu þar eins og hráviði. Þetta er í annað skiptið á fjórum árum sem varp mörgæsanna verður fyrir meiriháttar skakkaföllum.

Útbreiðsla hafíss við Suðurskautslandið hefur almennt verið óvenjulítil en svæðið í kringum mörgæsavarpið hefur hins vegar verið undantekning í ár.

Alþjóðleg náttúruverndarsamtök hvetja til þess að stofnað verði friðland á Suðurskautslandinu til að vernda mörgæsirnar, að því er segir í frétt BBC. Þannig segja Alþjóðlegi dýralífssjóðurinn (WWF) að með því að banna veiðar á átu væri hægt að tryggja afkomu tegunda á Suðurskautslandinu, þar á meðal Adelie-mörgæsanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×