Skoðun

Þjóðarsátt um kjör kvennastétta

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Kynbundinn launamunur er staðreynd á íslenskum vinnumarkaði. Konur hafa að meðaltali 13% lægri laun en karlar. Óútskýrður launamunur er 5,7%. Í síðustu kosningabaráttu lagði Viðreisn áherslu á lögbindingu jafnlaunavottunar og Alþingi samþykkti þann 1. júní lög þess efnis. Hin hliðin á kynbundnum launamun er sá launamunur sem telst útskýrður og enn stendur í tæpum 8%. Helsta skýringin er að vinnumarkaðurinn er kynbundinn, þar sem fjölmennar kvennastéttir fá greidd lægri laun en fjölmennar karlastéttir.

Þessar hefðbundnu kvennastéttir vinna störf sem við erum öll sammála um að gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Tilraunir hafa verið gerðar til að taka á vandanum með sértækum leiðréttingum einstakra starfsstétta. Þær hafa undantekningalítið orðið grunnur að almennum launakröfum á vinnumarkaði og hafa því litlum árangri skilað. Sé vilji til að taka á þessum vanda þarf sameiginlega aðkomu hins opinbera sem launagreiðanda og allra stéttarfélaga, á hinum almenna og opinbera vinnumarkaði. Meta þarf umfang þessa launamunar og hvernig honum verði eytt, án þess að það leiði til hefðbundinna víxlhækkana launa.

Verkalýðshreyfingin verður þar að vera samstiga um að þessar sértæku hækkanir verði ekki grunnur að launakröfum annarra stétta. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka höndum saman um að fjármagna skuli þessar lagfæringar. Hlutverk stjórnmálanna verður að leiða þetta samtal. Þar verður ekki framhjá því litið að hið opinbera ber ábyrgð sem launagreiðandi margra þessara stétta. Það er nefnilega ekki lögmál að svona þurfi staðan að vera.

Viðreisn kom jafnlaunavottun á dagskrá stjórnmálanna fyrir ári. Við viljum nú beina kastljósinu að kjörum kvennastétta. Þetta óréttlæti hefur afleiðingar sem samfélagið finnur fyrir. Það er viðvarandi vandamál að manna stöður í leikskólum, skólum og á heilbrigðisstofnunum. Uppbygging þessara grunnstoða verður að fara saman við átak í kjaramálum þessara hópa. Viðreisn telur þetta mál vera næsta stóra skrefið í að eyða kynbundnum launamun á íslenskum vinnumarkaði. Og fyrir þessu ætlum við að beita okkur.

 

Höfundur er félags- og jafnfréttismálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×