Erlent

Hið minnsta 23 látnir í skógareldunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þetta heimili í vínframleiðsluhéraðinu Napa brann til kaldra kola.
Þetta heimili í vínframleiðsluhéraðinu Napa brann til kaldra kola. Vísir/Getty
Tala látinna í norðurhluta Kalíforníu, þar sem nú geisa miklir kjarr- og skógareldar, er komin í tuttugu og þrjá. Þúsundir heimila, fyrirtækja og annarra bygginga eru skemmd eða með öllu ónýt eftir eldanna. Þá hafa um 20 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín.

Veðurspáin lofar ekki góðu og víða brenna eldarnir algjörlega stjórnlaust þrátt fyrir gríðarlega umfangsmikið slökkvistarf síðustu daga.

Eldarnir brenna nú á tuttugu og tveimur aðskildum svæðum í ríkinu og í Sonoma sýslu, þar sem ástandið er einna verst, hefur ekkert spurst til rúmlega 600 manns. Þá hafa rúmlega 170 einstaklingar þurft að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsum í nágrenninu og um 7000 manns hafa verið án rafmagns síðustu daga.

Sjá einnig: Gríðarlega eyðilegging í norðurhluta Kaliforínu

Lögreglustjórinn í sýslunni segist þó hafa fulla trúa á því að flest allir séu heilir á húfi, óreiðan sem skapaðist þegar eldarnir kviknuðu hafi gert það að verkum að erfitt hafi reynst að ná í fólk. Ken Pimlott, slökkviliðsstjóri í Kaliforníu, sagði í viðtali við fréttastofu CNN á dögunum að verið væri að rannsaka upptök eldanna. „Það er of snemmt að segja til um það hvort einhverjir eldanna séu af mannavöldum,“ sagði Pimlott en bætti við að líkurnar á því væru þó fremur litlar.

Rúmlega 8000 þúsund slökkviliðsmenn, með aðstoð 124 flugvéla, reyna nú hvað þeir geta til að ráða niðurlögum eldanna, sem lögreglustjórinn segir vera einhverjar verstu hamfarir í sögu ríkisins.


Tengdar fréttir

Gríðarleg eyðilegging í norðurhluta Kaliforníu

Í þrjá daga hafa gríðarlegir skógar- og kjarreldar geysað í norðurhluta Kaliforníuríkis og hafa alls 433 ferkílómetrar lands brunnið. Eldarnir hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í helstu vínhéruðum ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×