Erlent

Írakar handtaka háttsetta Kúrda

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kúrdar hafa verið áberandi í baráttunni gegn ISIS.
Kúrdar hafa verið áberandi í baráttunni gegn ISIS. Nordicphotos/AFP
Dómstóll í Írak fyrirskipaði í gær handtökur embættismanna Kúrda sem skipulögðu kosningar um stofnun sjálfstæðs ríkis írakskra Kúrda í september. BBC segir um að ræða meðlimi kjörstjórnar.

Abdulstar Bayraqdar, talsmaður dómstólsins, sagði handtökurnar fyrirskipaðar vegna kæru þjóðaröryggisráðs Íraks sem segir kosningarnar hafa brotið í bága við íröksk lög. Því myndi viðeigandi aðgerðum verða beitt gegn viðkomandi.

Kosningarnar fóru fram í september í óþökk Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks. Samþykktu 92 prósent kjósenda að lýsa yfir sjálfstæði.

Kúrdar eru fjórði stærsti þjóðflokkurinn í Mið-Austurlöndum. Þeir hafa aldrei náð að mynda sjálfstætt ríki. Í Írak eru Kúrdar um fimmtán til tuttugu prósent allra íbúa. Þar hafa þeir sætt kúgun en fengu þó sjálfsstjórnarréttindi 1991. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×