Guðmundur Árni Stefánsson, þá sendiherra og Björgólfur Thor Björgólfsson voru meðal þeirra sem mæltu með því að Tsvetelina Borislavova yrði skipuð heiðursræðismaður Íslands í Búlgaríu. Skipunin gekk í gegn árið 2006 og það var Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi utanríkisráðherra sem undirritaði skipunarbréfið, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.
Sagt var frá því í Fréttablaðinu í gær að Borislavova hafi í búlgörskum fjölmiðlum, og víðar, verið orðuð við peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi. Meðal annars var hún unnusta Boyko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, en tengsl hans við mafíuna í landinu eru þekkt. Í gögnum sem lekið var á vefsíðu WikiLeaks er meðal annars sagt að ræðismaðurinn stjórni stórum búlgörskum banka sem stundi vafasöm viðskipti.
„Það er sterklega mælt með þessari konu af þeim sem best þekkja til í Búlgaríu. Hún er vel tengd í viðskiptum og stjórnmálum. Þá er hún náinn samstarfsaðili við þau íslensku fyrirtæki sem allra helst hafa haslað sér völl í Búlgaríu,“ segir í meðmælabréfi Guðmundar Árna Stefánssonar, þá sendiherra Íslands í Svíþjóð, sem sinnti einnig sendiherraskyldum í Búlgaríu og fleiri ríkjum.
Í bréfinu vísar Guðmundur einnig til fyrirtækja Björgólfs Thors Björgólfssonar en hann var á þessum tíma aðaleigandi stórra búlgarskra fjarskipta- og lyfjafyrirtækja auk fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
„Frú Borislavova er vel þekkt og í hávegum höfð í viðskiptalífinu í Búlgaríu,“ segir í meðmælabréfi sem ritað er fyrir hönd Björgólfs Thors. „Í öllum hennar verkum hefur frú Borislavova sýnt sanna fagmennsku, áræðni og framúrskarandi samningslipurð. [...] Það er staðföst trú mín að Borislavova verði [...] trúr umboðsmaður sterkra tengsla milli Íslands og Búlgaríu og að hagsmunir lýðveldanna Íslands og Búlgaríu verði í öruggum höndum.“
Innlent
Umdeildur ræðismaður fékk meðmæli frá sendiherra og Björgólfi Thor
Tengdar fréttir
Ræðismaður fyrir Ísland orðuð við skipulagða glæpastarfsemi
Heiðursræðismaður Íslands í Búlgaríu, Tsvetelina Borislavova, sem var viðskiptafélagi Björgúlfs Thors Björgúlfssonar, hefur ítrekað verið orðuð við peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi.