Skoðun

Breytum um kúrs í heilbrigðismálum

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Hvernig á að byggja upp heilbrigðiskerfi þjóðar? Reka það, starfrækja, hlúa að þannig að það nýtist þjóðinni allri? Þessara spurninga hefur oft og tíðum verið spurt undanfarin ár, en því miður hafa of margir stjórnmálaflokkar heykst á því að svara þeim. Afleiðing þess er að heildarstefnu í heilbrigðismálum skortir og á meðan opinbera kerfið hefur setið á hakanum hefur einkarekni hlutinn vaxið nánast stjórnlaust.

Er það afleiðing hugmyndafræðilegra umræðna, þar sem þjóðin sýndi vilja sinn í verki? Nei, því miður. Þessu hefur verið laumað inn bakdyramegin, látið gerast í einstöku samningum án þess að skýr stefna sé borin undir þjóðina. Skyldi kannski engan undra, því kannanir sýna að mikill meirihluti vill einmitt þveröfuga stefnu; að byggja upp hið opinbera heilbrigðiskerfi. Stefna flokka sem vilja auka veg einkarekstrar hefur verið falin í orðum um fjölbreyttara rekstrarform og hugmyndafræðin var víðs fjarri hjá fráfarandi stjórnarflokkum þegar málefni Klíníkurinnar bar sem hæst í vor. Þar snerist allt um skilgreiningar orða, ekki skýra stefnu.

Ég sat fund BSRB um heilbrigðismál á mánudag, þar sem spurt var að því hver væri hagur sjúklinga, þegar að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu kæmi. Birgir Jakobsson landlæknir var einn frummælanda og hann var býsna skýr; aukning í einkarekstri hefði hingað til í raun og veru stýrst af framboði á sérgreinalæknum, en lítið stuðst við greiningar á þörfum sjúklinga. Núverandi kerfi sé letjandi fyrir opinbera aðila, en hvetjandi fyrir einkaaðila.

Einkavæðingin hefur aukist á kostnað opinberrar þjónustu. Það er risastór pólitísk ákvörðun, sem raunar hefur aldrei verði tekin á yfirborðinu. Stjórnmálamenn sem eru fylgjandi þessari þróun hefur hingað til skort kjark til að segja það upphátt við kjósendur, enda vita þeir sem er að sú skoðun þeirra á ekki upp á pallborðið hjá kjósendum sem vilja ekki þetta óheilbrigða kerfi.

Vinstri græn eru sammála Landlækni um að við eigum að staldra við varðandi einkavæðinguna. Það þarf að byggja upp sterkt opinbert heilbrigðiskerfi þar sem hagur og þarfir sjúklinga ráða för, ekki framboð á sérgreinalæknum.

 

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×