Viðskipti innlent

Nova byrjar með 4,5G þjónustu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, og Jóakim Reynisson, framkvæmdastjóri tæknisviðs, á kynningunni í dag.
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, og Jóakim Reynisson, framkvæmdastjóri tæknisviðs, á kynningunni í dag. nova
Fjarskiptafyrirtækið Nova kynnti í morgun að settir hefðu verið í loftið fyrstu 4,5G sendarnir en fyrirtækið er á meðal fyrstu farsímafyrirtækja í Evrópu til þess að hefja slíka þjónustu. Áætlað er að nethraðinn í farsímum viðskiptavina fyrirtækisins muni um það bil þrefaldast að því er segir í tilkynningu frá Nova.

„Um er að ræða viðbrögð fyrirtækisins við stóraukinni netnotkun sem Nova áætlar að muni vaxa áfram um tugi prósenta á ári. Það er fyrst og fremst streymi á lifandi efni í háum myndgæðum sem kallar á aukna flutningsgetu fjarskiptakerfa.

Stóraukin netnotkun fólks í farsímum snertir Nova sérstaklega, sem stærsta veitanda farsímaþjónustu á Íslandi, en viðskiptavinir fyrirtækisins nota netið mun meira en viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja. Til marks um það þá fór 63,8% af allri netumferð í farsímum hér á landi í fyrra, um farsímakerfi Nova.

Nova hefur á síðustu vikum sett upp fyrstu 4,5G sendana og því geta þeir sem eru með nýjustu farsímana nú þegar tengst 4,5G kerfinu, en á afmörkuðum svæðum til að byrja með. Nýjustu tegundir farsíma styðja 4,5G nethraða; má þar nefna Samsung S7 og Samsung S8, auk iPhone8 og iPhoneX sem er væntanlegur,“ segir í tilkynningu Nova.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×