Skoðun

Framtíðin er okkar

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Almenningur hefur lengi kallað eftir breytingum. Óskað eftir breyttum vinnubrögðum, nýjum áherslum og annarri forgangsröðun. Stofnun Viðreisnar fyrir einu og hálfu ári var svar við þessu ákalli og stefnuskrá flokksins er í samræmi við það.

Hátt matarverð, ofurvextir, misrétti í launakjörum kynjanna og skortur á húsnæði. Ekkert af þessu er lögmál heldur afleiðingar pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis undanfarin ár og áratugi.

Í síbreytilegum heimi felst stöðugleikinn ekki í kyrrstöðu, heldur í því að brjóta upp gömul kerfi sem eru úr sér gengin og notuð til að reisa varnarmúra um sérhagsmuni fárra. Kerfi hafa tilhneigingu til að viðhalda sér sjálf. Þegar við bætast varðmenn sem dulbúa varðstöðuna sem eftirsóknarverðan stöðugleika í stað þeirrar stöðnunar sem hún raunverulega felur í sér, þá getur verið á brattann að sækja.

Stjórnmálamenn sem hafa raunverulegan áhuga á því að beita kröftum sínum í almannaþágu verða að hafa hugrekki og dug til að ráðast að rótum vandans í stað þess að bölva afleiðingunum og lofa skyndilausnum. Þær eru í besta falli til skamms tíma og kosta íslenska þjóð heiftarlega timburmenn eins og dæmin sýna. Verst er þó að skyndilausnir við rótgrónum kerfislægum vandamálum fela oftast í sér mikinn og jafnvel óyfirstíganlegan kostnað fyrir næstu kynslóðir.

Leið Viðreisnar felst í faglegri nálgun samhliða áherslum á nauðsynlegar kerfisbreytingar og frjálslynd alþjóðasinnuð viðhorf. Jafnréttisáherslur Viðreisnar er nær óþarfi orðið að nefna, svo samofnar eru þær öllum stefnumálum og aðgerðum flokksins.

Það er kosið um samkeppnishæf lífskjör íslenskrar þjóðar í nútíð og framtíð. Þar eru húsnæðismál og matarkostnaður fjölskylunnar, samgöngur, heilbrigðismál og velferðarmál almennt. Menntamál er fjöregg þjóðarinnar til framtíðar með valfrelsi, sveigjanleika, nýsköpun og námstækni. Það sama á við um umhverfismálin, án nokkurs vafa stærsta jafnréttismál milli kynslóða. Á öllum þessum sviðum getum við verið í fremstu röð ef við höldum rétt á spilunum.

Viðreisn hefur sýnt og sannað á stuttum tíma að þar er unnið af krafti og elju að þessum stóru málum. Við erum því ófeimin við að biðja um umboð til frekari verka. Við munum fara vel með traustið.

 

Höfundur er þingmaður Viðreisnar, skipar 1. sæti í Reykjavík suður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×