Umfangsmikil gagnagíslatökuárás sem hefur hrellt fyrirtæki í Rússlandi og Úkraínu undanfarið hefur dreift úr sér og meðal annars komið upp í Þýskalandi, Japan og Bandaríkjunum.
Bandaríska netöryggissveitin CERT sagði í fyrrinótt að sveitinni hefði borist fjöldi tilkynninga um smit víða um heim og bandaríska ríkið varaði við útbreiðslunni í gær.
Veiran sem tekur gögnin í gíslingu er kölluð Bad Rabbit og er hún nýjasti gagnagíslatökufaraldurinn. Hefur hún valdið einna mestum skaða fyrir rússneska fjölmiðla og úkraínsk samgöngufyrirtæki. Gagnagíslatökur hafa verið mikið í umræðunni á árinu en fyrr á þessu ári komu upp tvær skæðar veirur af þessum toga er nefndust NotPetya og Wannacry.
Wannacry kom upp á Íslandi og voru að minnsta kosti tvö tilfelli staðfest. Hins vegar kom ekki upp staðfest tilfelli af sýkingu af völdum NotPetya-veirunnar.
Líkt og NotPetya og Wannacry læsir Bad Rabbit gögn sýktrar tölvu og krefst greiðslu gegn því að aðgangur að gögnunum verði opnaður á ný. Varað er við því að verða við kröfunni enda ekki tryggt að aðstandendur gíslatökunnar standi við loforðið.
Vara við nýjum faraldri
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
