Bandaríski leikarinn Robert Guillaume er látinn, 89 ára að aldri. Guillaume er einna þekktastur fyrir leik sinn í gamanþáttunum Soap og Benson og þá gerði hann jafnframt garðinn frægan þegar hann ljáði apanum Rafiki rödd sína í Disneymyndinni Konungur ljónanna.
Guillaume lést í Los Angeles í gær en hann hafði glímt við blöðruhálskrabbamein.
Guillaume fór með hlutverk þjónsins Benson DuBois í þáttaröðinni Soap sem hóf göngu sína árið 1977. Tveimur árum síðar hófst gerð sérstakra þátta, Benson, um téðan þjón en síðasta þáttaröðin var sýnd árið 1986.
Á ferli sínum vann Guillaume til tveggja Emmy-verðlauna, fyrst árið 1979 fyrir hlutverk sitt í Soap og svo aftur árið 1985 fyrir frammistöðu sína í þáttunum Benson.
Hann lætur eftir sig eiginkonu og fjögur uppkomin börn.
Erlent