Skoðun

Húsnæðisstefna Alþýðufylkingarinnar

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar
Húsnæði er drjúgur hluti af framfærslukostnaði alþýðufjölskyldna á Íslandi. Þess vegna skiptir það höfuðmáli að minnka þann kostnað til að bæta lífskjörin. Stærsti liður húsnæðiskostnaðarins er vextir af lánum. Það er auk þess alveg óþarfur kostnaðarliður, þannig að þar er eðlilegast að bera niður fyrst við að lækka kostnað.

Með því að taka fjármálakerfið úr höndum einkaaðila og koma því í félagslegan rekstur á vegum ríkisins er möguleiki að lána vaxtalaust til hóflegra húsnæðiskaupa, þar sem engir kapítalistar eru til að draga sér hlut af því. Þegar stærri hluti af fjármagni samfélagsins er í sameiginlegri eigu er einnig hægt að reka félagslegt leiguhúsnæði eftir þörfum, þar sem leigan þarf ekki að standa undir vaxtakostnaði af því fé, sem bundið er í byggingunum. Þessar aðgerðir myndu valda straumhvörfum í bættum lífskjörum almennings á Íslandi, og skapa grundvöll fyrir aukinn jöfnuð og gegnsæi í kjörum.

Húsnæði er frumþörf, sem allir þurfa á að halda. Fjármögnun þess á því ekki að vera gróðaleið fyrir svokallaða fjármagnseigendur á markaði. Það er meira í ætt við fjárkúgun en frjáls viðskipti. Enda hefur fjármögnun húsnæðis ekki aðeins verið notuð til að draga til sín afgjald reglulega, heldur einnig til að svifta fólk aleigunni þegar svo ber undir, og færa eignir almennings í hendur fárra auðmanna, eins og gerðist í stórum stíl í kjölfar hrunsins. Þannig stuðlar þetta kerfi eftir mörgum leiðum að ójöfnuði og eignasöfnun á fáar hendur.

Það er því brýnt að húsnæðisstefna Alþýðufylkingarinnar komist til framkvæmda sem fyrst til að koma í veg fyrir frekari skaða en orðinn er.

Höfundur er trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar.

 




Skoðun

Sjá meira


×