Skoðun

50 gráir skuggar

Sindri Þór Sigríðarson skrifar
Á Íslandi er tekjujöfnuður mikill og með því mesta sem þekkist í heiminum öllum. Þýðir það að jöfnuður ríki almennt í íslensku samfélagi?

Aldeilis ekki! Á Íslandi er mikill og viðvarandi ójöfnuður auðs. Lítill hluti landsmanna á stóran hluta allra eigna, bæði fasteigna og peningalegra eigna. Þennan ójöfnuð mála vinstri flokkarnir sem átök hinna ríku gagnvart hinum fátæku. Nokkuð sígild saga í þeirra herbúðum. Ef við lítum hins vegar til þess hve tekjujöfnuður er mikill hér á landi þá sjáum við að vandamálið er ekki svo einfalt. Á Íslandi er nefnilega vaxandi hópur vel launaðs fólks með enga eða neikvæða eignastöðu. Hvar liggja þá eignirnar?

Hjá eldri kynslóðum þessa lands. Ef skoðaðar eru tölur frá Hagstofu Íslands fyrir árið 2016 má sjá að Íslendingar 60 ára og eldri, 18% þjóðarinnar, eiga 45% allra eigna og þar af 55% allra peningalegra eigna hér á landi. Helmingur allra eigna á landinu er í höndum elstu átján prósenta þjóðarinnar. Vandamálið er því ekki „ríkir á móti fátækum.“ Vandamálið er kynslóðabundið. Á Íslandi er kynslóð fólks sem gat komið yfir sig þaki og greitt fyrir í gjörólíku efnahagsumhverfi. Frá 1994 hefur fasteignaverð almennt hækkað um 23% umfram hækkun launa og 223% umfram hækkun verðlags almennt. Fólk sem komst inn á fasteignamarkaðinn fyrir þennan tíma greiddi því hlutfallslega minna fyrir sínar eignir og átti betra með að greiða afborganir húsnæðislána, það er að segja ef lánið brann ekki upp á verðbólgubáli áttunda og níunda áratugarins. Þessi kynslóð fólks var því fljót að eignast sínar fasteignir og gat lagt meira til hliðar í formi sparnaðar og fjárfestinga.

Risavaxinn vandi ungs fólks

Málefni eldri borgara virðast í forgrunni flestra stjórnmálaflokka fyrir þessar kosningar en minna hefur borið á málefnum ungs fólks. Í Gráa hernum er margt málsmetandi fólk sem ég ber virðingu fyrir. Engu að síður segi ég fullum fetum að vandi eldri borgara á Íslandi í dag er smávægilegur saman borinn við þann vanda er steðjar að yngri kynslóðum þessa lands og þá sérstaklega vegna húsnæðismála.

Vandi eldri borgara er ekki almennur heldur sértækur og snýr að tiltölulega litlum hópi fólks, aðallega konum, sem yfir sína starfsævi eignaðist hvorki eignir né lífeyrisréttindi. Feminískur vandi sem á að stórum hluta rætur að rekja til karllægrar samfélagsgerðar fyrri tíðar. Þetta verða stjórnvöld að laga en til þess þarf ekki stórar almennar aðgerðir heldur þarf að beina sjónum að þessum tiltekna hópi.

Vandi sá er steðjar nú að yngri kynslóðum þessa lands er risavaxinn, hann nær til allra og hann er þegar farinn að hafa áhrif á lífsskilyrði og búsetuákvarðanir þeirra. Þegar upp er staðið hafa stjórnvöld bara eitt verkefni: Að láta fólk frekar vilja búa hér en úti í hinum stóra heimi. Það er erfitt þegar ungt fólk kemst varla úr foreldrahúsum sökum himinhás fasteignaverðs, enn hærri vaxta og ónýts leigumarkaðar.

Björt framtíð fyrir ungt fólk

Björt framtíð vill ábyrgar langtímalausnir á húsnæðisvandanum sem er orðinn eins og myllusteinn um háls ungs fólks. Við trúum ekki á brellur og fiff, hvorki svissneskar né aðrar. Við viljum Evru eða tengingu við Evru svo vextir geti lækkað og stöðugleiki geti komist á gjaldmiðilinn. Þannig munum við sjá húsnæðislán á Íslandi í líkingu við þau sem finnast í nágrannalöndum okkar.

Björt framtíð vinnur hörðum höndum að fjölgun íbúða á höfuðborgarsvæðinu þannig að á næstuni munu rísa íbúðir á við heilan Mosfellsbæ innan borgarmarkanna. Við vitum að fjölgun íbúða, og þá sérstaklega lítilla og meðalstórra íbúða, er eina raunverulega lausnin við þeim vanda er nú ríkir á fasteignamarkaði. Besta lausnin til að ungt fólk geti komist inn á fasteignamarkaðinn og eina lausnin sem ekki mun sprengja fasteignaverð enn hærra upp. Þetta viljum við sjá víðar.

Samhliða því vinnur Björt framtíð að uppkomu leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni svo ungt fólk fái raunverulegt val um hvort það vilji eiga eða leigja húsnæði. Okkar kjörnu fulltrúar hafa unnið ötullega fyrir unga Íslendinga og leita nú eftir þínum stuðningi næstkomandi laugardag til að geta haldið því áfram.

Mætum, kjósum og tryggjum Bjarta framtíð fyrir unga fólkið.

Höfundur er viðskiptafræðingur og á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi Norður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×