Skoðun

Raunverulegur stöðugleiki

Smári McCarthy skrifar
Að festast í skotgrafahernaði er atvinnusjúkdómur stjórnmálamanna. Ofbeldissamband stjórnar og stjórnarandstöðu snýst um aðþrengingu. Kollegum í þinghúsinu er skipt í lið og andstæðingurinn skal sko ekki komast upp með neitt.

Margar heiðarlegar tilraunir hafa verið gerðar til að láta af þessum svæsna ósið, en hann heldur áfram. Ástæðan er einföld. Meirihlutinn hefur nær ótakmarkað vald til að koma sínum hugðarefnum áleiðis, með dagskrárvaldi og meirihluta atkvæða, en minnihlutinn þarf að sætta sig við að gelta bara á meðan. Von minnihlutans er að ef hann geltir nógu hátt muni einhver taka eftir þeim í samfélaginu, og geti þá stöðvað lítið rædda eða illa ígrundaða lagasetningu sem annars færi í gegn í þeirra óþökk.

Svona stjórnmál eru samfélaginu dýrkeypt. Árangurinn verður í mýflugumynd og margt situr á hakanum. Almenningur bíður enn eftir að uppgjörinu við hrunið sé að fullu lokið og að uppbygging hefjist fyrir alvöru. En nei, stjórnmálamenningin getur bara af sér endalausar þrætur og ríkisstjórnir hrynja í gríð og erg. Þetta er hvimleitt.

Það er mikil þörf á bættri stjórnmálamenningu, en það er fráleitt að ætla að það eitt að skipta út fólki muni duga. Píratar hafa frá stofnun talað fyrir kerfisbreytingum til að bæta skilvirkni, þjónustugæði og áreiðanleika í stjórnkerfinu. Við skiljum að oft getur vel meinandi fólk verið fast í mannskemmandi umhverfi þar sem lélegar niðurstöður eru óhjákvæmilegar. Það er líka satt í stjórnmálum: enginn fer í stjórnmál af illum hug. En vondar reglur leiða af sér vondar niðurstöður.

Sé vilji til verksins má laga reglurnar. Laga starfshætti þingsins og ferli þingmála, auka getu stjórnkerfisins til að vinna mál hratt en vel. Draga úr sóun og auka skilvirkni.

Í þannig umhverfi getur samvinna blómstrað þrátt fyrir pólitískan ágreining. Í stjórnmálum er endalaust rætt um stöðugleika. Raunverulegur stöðugleiki verður ekki til í vondu vinnuumhverfi. Lögum það.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×