Opinber siðanefnd í Svíþjóð (Centrala etikprövningsnämnden) telur að ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hafi gerst sekur um „vísindalegt misferli“ við rannsóknir sínar á plastbarkaígræðslum í mönnum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá nefndinni.
Nefndin hafði að beiðni Karoliska Institutet í Stokkhólmi rannsakað sex fræðigreinar um plastbarkaígreiðslur þar sem Macchiarini var titlaður aðalhöfundur. Tvær greinanna voru birtar í hinu virta læknariti Lancet og hinar fjórar í öðrum tímaritum. Íslensku læknarnir Óskar Einarsson og Tómas Guðbjartsson voru meðhöfundar einnar greinarinnar.
Er það niðurstaða nefndarinnar að í öllum greinunum komi fram „vísindalegt misferli“. Bengt Gerdin prófessor sem hafði áður rannsakað greinarnar, hafði áður komist að sömu niðurstöðu.
Segir að textinn hafi verið misleiðandi og að Macchiarini hafi í greinunum fegrað ástand sjúklinga sinna. Upplýsingar vanti og Macchiarini hafi fullyrt ranglega að hann hafi fengið heimild siðanefndar til að framkvæma aðgerðir sínar, en vanalega þarf slíka heimild þegar læknar prófa nýjar rannsóknaraðferðir.
Allir meðhöfundar ábyrgir
Niðurstaða siðanefndar er sú að allir höfundar greinanna - það er meðhöfundar einnig - hafi gerst sekir um „vísindalegt misferli“ í málinu, en sá sem beri höfuðábyrgð sé Macchiarini sjálfur.
Siðanefndin hafði í september á síðasta ári einnig komist að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hafi gerst sekur um vísindalegt misferli. Þá hafi einungis ein grein verið rannsökuð, en nú hafi sex verið teknar til skoðunar.
Beinir siðanefndin því til fagtímaritanna að draga umræddar greinar til baka.
Óskar og Tómas meðhöfundar
Íslensku læknarnir Óskar Einarsson og Tómas Guðbjartsson voru meðhöfundar einnar greinarinnar þar sem fjallað var um rannsóknir á Erítreumanninum Andemariam Beyene, sem bjó á Íslandi og glímdi við krabbamein í barka. Hann var sendur til Stokkhólms þar sem hann gekkst undir aðgerð hjá Macchiarini árið 2011. Beyene lést árið 2014.
Fyrr í þessum mánuð var greint frá því að saksóknarar í Svíþjóð hafi ákveðið að fella niður mál gegn Macchiarini, sem grunaður var um að hafa verið valdur að dauða annarra eftir að grætt plastbarka í þrjá sjúklinga. Ekki hafi verið hægt að færa nægar sönnur á því að aðgerðirnar hafi leitt til dauða fólksins.
Var ráðinn 2010
Macchiarini var ráðinn til Karolinska í Stokkhólmi árið 2010 og á árunum 2011 til 2013 framkvæmdi hann plastbarkaaðgerðir á sjúkrahúsinu þar sem vonast var til að græða plastbarkana í líkama sjúklinganna og að þeir myndu starfa sem venjulegir barkar með aðstoð stofnfruma.
Aðferðin gekk hins vegar ekki upp og hafi allir þrír sjúklingarnir látist eftir að aðgerðirnar voru framkvæmdar.
Sjúklingarnir sem um ræðir voru kona frá Tyrklandi, bandarískur karlmaður og Beyene. Auk sjúklinganna þriggja var Macchiarini einnig grunaður um að hafa verið valdur að grófu líkamstjóni fjórða sjúklingsins.
Erlent
Telur meðhöfunda Macchiarini einnig bera ábyrgð
Tengdar fréttir
Fella niður mál gegn Macchiarini
Saksóknarar í Svíþjóð hafa ákveðið að fella niður mál gegn ítalska skurðlækninum Paolo Macchiarini, en hann var grunaður um að hafa verið valdur að dauða annarra eftir að grætt plastbarka í þrjá sjúklinga.