Dor var frægust fyrir hlutverk sitt í Bond-myndinni You Only Live Twice frá árinu 1967 þar sem hún lék á móti Sean Connery. Dor lék þar kynþokkafulla skúrkinn Helgu Brandt, en Dor er eina þýska leikkonan sem farið hefur með hlutverk „Bond-gellu“.
Bild greinir frá því að Dor hafi átt við veikindi að stríða eftir að hún féll og rak höfuðið í gangstétt fyrir um tveimur árum.
Tveimur árum eftir útgáfu You Only Live Twice fór Dor með hlutverk í Topaz, mynd Alfred Hitchcock. Dor lék í fjölda sjónvarpsþátta á um sextíu ára leiklistarferli sínum, en síðasta kvikmyndahlutverk hennar var í þýsku myndinni Die abhandene Welt frá árinu 2015.