Sport

Einn besti hafnaboltaleikmaður síðari ára lést í flugslysi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roy Halladay var ekkert minna en stórkostlegur leikmaður.
Roy Halladay var ekkert minna en stórkostlegur leikmaður. vísir/getty
Bandaríski hafnaboltaheimurinn missti einn af sínum dáðustu sonum í gær þegar að staðfest var að hinn fertugi Roy Hallady, sem hætti að spila árið 2013, lést í flugslysi.

Lítil rella hrapaði til jarðar á mánudaginn í Flórídaríki og staðfesti lögreglan í Pasco County í gær að sá sem lést var þessi magnaði fyrrverandi kastari sem er einn af bestu leikmönnum síðari ára og síðustu áratuga í bandarísku MLB-deildinni.

Lík Halladay fannst rétt hjá vélinni en verið er að rannsaka tildrög slyssins. Halladay var einn í vélinni en hann tók flugmannsprófið eftir að hafnaboltaferlinum lauk fyrir fjórum árum. Faðir hans var flugmaður.

Roy Halladay spilaði 16 leiktíðir í MLB-deildinni; fyrstu tólf með Toronto Blue Jayes og síðustu fjórar með Philadelphia Phillies. Hann vann 203 leiki á ferlinum og tók 2,117 leikmenn út með köstum sínum.

Hann var átta sinnum valinn í stjörnuleikinn og tvívegis (2003 og 2010) fékk hann verðlaun sem besti kastarinn í Ameríkudeildinni. Bæði árin vann hann flesta leiki af öllum kösturum í deildinni.

Roy Halladay er aðeins annar af tveimur mönnum sem hefur klárað leik í úrslitakeppninni án þess að svo mikið sem einn maður kæmist í fyrstu höfn hjá honum en það kallast „no-hitter“ og er það flottasta sem kastari í MLB-deildinni getur gert.

Halladay verður gjaldgengur í heiðurshöllina árið 2019 var morgunljóst löngu áður en hann féll frá að hann kæmist þar inn í fyrstu tilraun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×