Skoðun

Facebook græddi 500 milljarða í sumar

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Á meðan Snapchat og Spotify hafa aldrei skilað hagnaði og tekjur Twitter dragast saman virðist allt ganga Facebook í haginn. Uppgjör þriðja ársfjórðungs var birt í síðustu viku og er það í áhugaverðari kantinum.

Hagnaður félagsins nam um 500 milljörðum króna á fjórðungnum, sem er um 80% aukning frá sama fjórðungi í fyrra og nam hagnaður sem hlutfall af tekjum 46%. Hagnaður þessa eina ársfjórðungs jafngildir því sem íslenska ríkið ver til félags, húsnæðis- og tryggingamála á heilu ári auk reksturs heilbrigðis- og menntakerfanna.

Gríðarlegar væntingar eru gerðar til félagsins og þrátt fyrir að uppgjörið hafi verið betra en vænst hafði verið lækkuðu hlutabréf félagsins samdægurs um 2,6%, einkum vegna áætlana um aukin útgjöld. Þar má sérstaklega nefna yfir 100 milljarða króna sem verja á til kaupa og framleiðslu myndbanda. Næsta árið verður því afar áhugavert að fylgjast með hvort Facebook hyggist til dæmis semja við ensku úrvalsdeildina um útsendingarrétt og fara í beina samkeppni við Netflix og Amazon um kaup á sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

Facebook, rétt eins og Google, byggir nær allar sínar tekjur á auglýsingum. Ágætis mælikvarði á árangur markaðsstarfsins eru þær tekjur sem hver notandi skilar. Munurinn milli landsvæða er afar mikill. Langsamlega mestu tekjurnar fær fyrirtækið frá notendum í Bandaríkjunum og í Kanada, en þær eru þrefalt meiri en í Evrópu og níu sinnum meiri en í Asíu. Vöxturinn í Evrópu lofar þó góðu og var hlutfallslega mestur á milli ára, eða 45% borið saman við 26% vöxt á heimsvísu.

Samfélagsmiðlar stefna fyrst og fremst að tvennu. Fyrst þarf að laða að sem flesta notendur og svo þarf að láta þá borga. Facebook hefur tekist afar vel á báðum sviðum ólíkt helstu samkeppnisaðilum, sem eiga margir hverjir í mesta basli með að tryggja að notkun skili tekjum. Þeir sem tóku þátt í útboðinu við skráningu félagsins 2012 hafa nærri sjöfaldað aurinn sinn, sem hlýtur að teljast ansi gott.

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×