Skoðun

Áhrif samfélagsmiðla á lýðræðið

Erla Ýr Gylfadóttir skrifar

Kosningar til Alþingis eru nú nýafstaðnar og sveitastjórnarkosningar eru á næsta ári. Þá er tímabært að skoða hvernig almenningur mótar sér skoðanir í aðdraganda kosninga.

Allskyns upplýsingum og áróðri var dreift nafnlaust með það að markmiði að hafa áhrif á kjósendur. Þá sáu margir Íslendingar áminningu í fréttaveitu sinni á Facebook að það væri kjördagur á Íslandi. Áminningin birtist þó ekki í fréttaveitum allra kjósenda. Notendur eru misvirkir á Facebook og nota yngri kjósendur gjarnan aðra samfélagsmiðla frekar. Það er áhugavert að skoða áminninguna í samhengi við rannsókn sem gerð var árið 2010 í Bandaríkjunum. Þá gerði Facebook rannsókn á áhrifum þess að minna notendur sína á kosningarnar í fréttaveitu sinni. Facebook sendi 60 milljónum kosningabærra Bandaríkjamanna áminningu um kosningarnar. Niðurstöður voru þær að kjósendur sem fengu áminningu í fréttaveitunni voru 0,14% líklegri til að kjósa en aðrir notendur.

Segja má að 0,14% sé ekki há tala. En ef talan er sett í samhengi þá munaði einungis 537 atkvæðum á forsetaframbjóðendunum Gore og Bush í Flórída fylki árið 2000 þegar Bush var kjörinn forseti. Hér á Íslandi geta aðeins nokkur atkvæði skipt sköpum vegna fámennisins.

Niðurstöðurnar þykja athyglisverðar, enda sýna þær mátt Facebook og hvernig einföld áminning getur haft áhrif á kosningaþátttöku. Ef vald samfélagsmiðils er svo mikið hlýtur að þurfa að skoða hvaða hópar eru líklegri til að nota Facebook að staðaldri og fá slíka áminningu á kjördag. Það skiptir verulegu máli.

Auðvitað er það jákvætt að notaðar séu margvíslegar leiðir til að auka kosningaþátttöku og til að miðla upplýsingum svo að kjósendur geti gert upp hug sinn. En rannsóknir sýna að ómerkt skilaboð og áróður sem miðlað er til fólks getur verið skaðlegur. Það er líka ógagnsætt hvernig samfélagsmiðlar forgangsraða efni og auglýsingum í fréttaveitum notenda. Samfélagsmiðlar líkt og fjölmiðlar hafa mikið vald. Það er kominn tími til ræða af alvöru hlutverk og skyldur þeirra í aðdraganda kosninga.

Höfundur er framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×