Innlent

Airwaves-gestir hvattir til að mæta snemma á Mumford & Sons vegna veðurs

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Breska sveitin Mumford & Sons er eitt af stærstu atriðum tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves í ár.
Breska sveitin Mumford & Sons er eitt af stærstu atriðum tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves í ár. Vísir/Getty
Áhorfendur, sem hyggjast leggja leið sína á tónleika bresku sveitarinnar Mumford & Sons, eru hvattir til þess að mæta tímanlega í Valshöllina í kvöld vegna veðurs. Höllin mun opna með fyrra fallinu, eða klukkan 18, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves, sem nú fer fram víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.

Leiðindaveðri er spáð á suðvesturlandi í dag og í kvöld. Appelsínugul viðvörun er til að mynda í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð og Miðhálendið samkvæmt nýju viðvörunarkerfi Veðurstofu Íslands.

Tekin hefur verið ákvörðun um að opna Valshöllina kl. 18 í kvöld en samkvæmt dagskrá mun hljómsveitin Mumford & Sons stíga á stokk klukkan 22:30. Þannig verði fólk komið í hús áður en versta veðrið gengur yfir, segir enn fremur í tilkynningu frá Iceland Airwaves.

Dagskrá í Valshöllinni í kvöld er því eftirfarandi:

18:00: Húsið opnar

20:00: Árstíðir

21:10: Axel Flovent

22:30 Mumford & Sons




Fleiri fréttir

Sjá meira


×