Fótbolti

Óvíst hvort að Alfreð geti spilað um helgina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð í leik með Augsburg.
Alfreð í leik með Augsburg. Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason er tæpur fyrir leik Augsburg gegn Bayer Leverkusen um helgina vegna meiðsla í nára. Þetta segir Manuel Baum, þjálfari liðsins, í samtali við Kicker í Þýskalandi.

Alfreð hefur skorað fimm mörk með Augsburg á tímabilinu, nú síðast í 3-0 sigri á Werder Bremen um helgina, auk þess að gefa eina stoðsendingu. Alfreð hefur byrjað alla tíu leiki Augsburg á tímabilinu í þýsku deildinni.

„Það er spurning hvort hann geti yfirleitt spilað á laugardaginn,“ sagði Baum en Alfreð þurfti að fara af velli í leik gegn Hannover fyrir tveimur vikum vegna meiðslanna. Eftir það hefur hann lítið getað æft en spilaði þó gegn Bremen um helgina, sem fyrr segir.

Baum segir nú að útlitið hafi orðið aðeins verra í vikunni og ljóst er að hann ætlar að gæta sín með Alfreð.

„Við verðum að gæta okkar. Við viljum ekki taka neina áhættu með Alfreð.“

Augsburg er um miðja deild í Þýskalandi, í níunda sæti með fimmtán stig eftir tíu umferðir. Sigurinn á Bremen var þó sá fyrsti í deildinni síðan um miðjan september.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×