Körfubolti

Hlynur: Höfum verið langt niðri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson í baráttunni gegn Val fyrr í vetur.
Hlynur Bæringsson í baráttunni gegn Val fyrr í vetur. Vísir/Anton
„Við höfum verið í miklu basli, langt niðri og í einhverju kjaftæði. Það er gott að geta eitthvað,“ sagði Hlynur Bæringsson leikmaður Stjörnunnar eftir góðan sigur á Grindavík suður með sjó í kvöld. Stjörnumenn jöfnuðu Grindavík að stigum með sigrinum.

Gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti á meðan ekkert gekk hjá heimamönnum. Þeir komust meðal annars í 30-8 í upphafi annars leikhluta og leiddu allan leikinn.

„Þetta var mjög fínt að mestu leyti. Við tókum smá kafla, eins og við höfum gert í vetur, þar sem við erum að taka slæmar ákvarðanir og þeir komust aftur inn í leikinn í þriðja leikhluta. Það verðum við að laga, þetta er ekki nógu gott. Heilt yfir góður leikur og margir að spila vel.“

Hlynur sagði að það hafi þó ekki bara verið góður leikur Stjörnumanna sem skóp gott forskot eftir fyrri hálfleikinn.

„Við vorum nokkuð ákafir sem hefur vantað. Að sama skapi misstu þeir svolítið af skotum og voru flatir í vörninni. Þetta var blanda af hvoru tveggja, við góðir og þeir slakir.“

Stjörnumenn fara inn í landsleikjahléið með fjóra sigra og fjögur töp og hafa unnið síðustu tvo leiki. Hynur sagði þó að mikið verk ætti eftir að vinna í Garðabænum.

„Framhaldið, ég veit ekki hvernig það verður. Við þurfum að spila betur og spila betur sem lið. Þessi eini leikur breytir ekki öllu þó hann sé gott skref í rétta átt. Við verðum að vinna að þessu saman og ef við náum að sýna meiri kraft þá líst mér ágætlega á okkur.“

"Við höfum verið langt niðri og kraftlausir í undanförnum leikjum. Of lítill ákafi hjá mér og fleiri leikmönnum, það vantaði baráttu og þetta var leiðinlegt. Núna fannst mér við sýna, sama hvernig þetta hefði farið, að við reyndum okkar besta,“ sagði Hlynur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×